Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Undirbúa tengipunkt í Ísafjarðardjúpi

04.12.2017 - 13:52
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ekki hefur verið gengið frá nýjum tengipunkti flutningskerfis Landsnets í Ísafjarðardjúpi en hann er sagður forsenda þess að Hvalárvirkjun standi undir sér. Forstjóri Landsnets telur líklegt að tengipunkturinn fái samþykki Orkustofnunar.

 

Tenging í ferli

Nýr tengipunktur eða afhendingarstaður raforku veltur á fyrirhuguðum virkjunum í Ísafjarðardjúpi auk Hvalárvirkjunar. Þá þarf tengipunkturinn að fara inn á kerfisáætlun Landsnets. Þegar tengikostnaður liggur fyrir og ef samningar nást milli Landsnets og virkjanaaðila þarf tengingin öll að fara í skipulagsferli og umhverfismat. „Við erum í viðræðum við þessa aðila sem eru að fara í þessar virkjanir allar og síðan erum við bara að fara í valkostagreiningu leggja kostnaðarmyndina upp og svo fer það bara sína leið í kerfinu og fær líklega að lokum samþykki Orkustofnunar,“ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets.

Nýr tengipunktur forsenda virkjunar

Með nýjum tengipunkti styttist sú leið sem virkjunaraðilar þurfa að leiða raforkuna úr virkjuninni og að flutningskerfi Landsnets og um leið minnkar kostnaðurinn fyrir þá. Landsnet leggur línur og flytur raforkuna en virkjunaraðilar bera umframkostnað að því að tengja sig við dreifikerfið. Fjarlægðin að núverandi tengipunkti og kostnaðurinn við að tengja virkjunina þangað þykir of hár þröskuldur til að yfirstíga og breytti fyrrverandi iðnaðarráðherra reglugerð í raforkulögum til að tryggja að nýr tengipunktur gæti orðið að veruleika. Landsnet gerir ráð fyrir því að aukinn flutningur sem af tengipunkti hlýst skapi tekjustreymi fyrir Landsnet, sem gangi upp í kostnað við fjárfestingu. 

Til skoðunar að leggja jarðstrengi

Guðmundur Ingi segir að verið sé að skoða hvort og hversu mikið af línum megi leggja í jörð um Ófeigsfjarðarheiði, það sé talinn besti kosturinn vegna veðurs: „Það þarf náttúrlega tæknilegt mat að leiða í ljós hvort að það sé hægt að vera með svona langan jarðstreng og það gerir það að verkum að virkjunaraðilinn þarf jafnvel að aðlaga virkjunina að jarðstrengnum. Gefa aukið svigrúm til spennustýringar sem við þurfum til að setja jarðstreng þarna.“