Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Undirbúa opnun á setri fyrir heimilislausar konur

Mynd með færslu
sr. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.  Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Kirkjuráð þjóðkirkjunnar samþykkti á fundi sínum 11. desember síðastliðinn að koma upp dagsetri fyrir heimilislausar konur. Fjárveiting er í fjárhagsáætlun þjóðkirkjunnar fyrir þetta ár. Hugmyndin er að setrið verði opið alla daga ársins frá klukkan 11 til 17.

Það vantar skjól fyrir heimilislausa yfir daginn, Konukot er opnað klukkan 17 og því lokað klukkan 10 og því ákvað þjóðkirkjan að brúa þetta bil, að sögn Péturs Georgs Markan, samskiptastjóra þjóðkirkjunnar.

Ætlunin er að bjóða upp á húsaskjól, hádegismat, þvotta- og sturtuaðstöðu og fleira. Stefnt er að því að ýmsir fagaðilar komi að starfseminni og að hún verði í samstarfi við Reykjavíkurborg og Rauða krossinn, að sögn Péturs. Biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, ætlar að funda með Degi B. Eggertssyni, borgarstjóra, um málið í lok mánaðar. 

Stefnt er að því að opna setrið ekki síðar en næsta sumar en ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun um það hvar setrið verði. 

Opnun setursins hefur verið í undirbúningi í nokkurn tíma. Biskup skipaði starfshóp til að kanna möguleikann á því að kirkjan kæmi á fót dagþjónustu fyrir heimilislaust fólk og eins og áður sagði þá samþykkti kirkjuráð tillöguna í desember. Hópurinn lagði til að í fyrstu yrði opnað setur fyrir heimilislausar konur og að boðið verði upp á hádegismat og síðdegishressingu.