Undirbúa erindi til siðareglunefndar Alþingis

01.02.2019 - 14:00
Mynd með færslu
Samsett mynd - RÚV Mynd:
Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna, og Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem voru valin sem sérstakir auka-varaforsetar Alþingis vegna Klausturmálsins, vinna nú að undirbúningi formlegs erindis til siðareglunefndar Alþingis.

Erindið snýr að því að skera úr um hvert gildissvið siðareglna Alþingis er. Steinunn Þóra segir í samtali við fréttastofu að niðurstaða nefndarinnar verði gerð opinber þegar hún liggur fyrir. 

Þau Steinunn og Haraldur voru valin, meðal annars vegna þess að þau voru meðal fárra þingmanna sem ekki höfðu tjáð sig um Klausturmálið.

Ræða hvernig megi tryggja vinnufrið á þinginu

Formenn þingflokka á Alþingi hafa undanfarið átt óformlega fundi og rætt um formennsku Bergþórs Ólasonar í umhverfis- og samgöngunefnd og hvernig megi stuðla að betri vinnufriði í þinginu. Uppnám varð á fundi nefndarinnar á föstudag vegna formennsku Bergþórs, en tillögu minnihlutans og Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur, þingmanns Vinstri grænna, um að Bergþór myndi víkja sem formaður, var vísað frá.