Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Undirbúa dómsmál vegna hefndarkláms

03.12.2014 - 12:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Mynd:  / 
„Við sjáum aukningu í málum þar sem konur og stelpur lenda í því að hafa verið í sambandi þar sem tekin voru upp kynlífsmyndbönd með þeirra kærasta. Eftir að sambandi lýkur er það sett á netið eða því hótað. Það eru alvarleg brot,“ segir Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari hjá embætti Ríkissaksóknara

Að undanförnu hafa sprottið upp vefsíður þar sem myndefni af þessum toga er birt, svokallað hefndarklám. Víða er unnið að því að setja lög sem ná utan um myndbirtingu af þessari gerð en á Íslandi varða þau brot á blygðunarsemi eða ærumeiðingum. 

„Með aukinni netnotkun eykst hætta á misnotkun, við sjáum ýmsar birtingarmyndir þessarar misnotkunar í okkar starfi - það getur verið allt frá því að menn setji sig í samband við börn á netinu og fá þau til að bera sig eða bera sig fyrir þeim, við sjáum brot þar sem einhverjir senda myndir af þessum toga til einhvers sem ekki hefur óskað eftir því og svo er það þetta, þegar menn setja svona myndir sem þeir hafa í sínum fórum á netið gegn vilja viðkomandi,“ segir Kolbrún. 

Getur varðað við lög um nauðgun

Hún segir upplýsingar ekki liggja fyrir um nákvæman fjölda þessara brota. „Ég held að þessi mál séu fleiri en lenda inni á borði hjá lögreglu. Það er heldur ekki alltaf sem myndirnar eru settar á netið heldur því hótað. Jafnvel höfum við séð og heyrt dæmi um að fólk noti tilvist svona myndefnis til að kúga konuna til að halda áfram í sambandinu, hætta í nýju sambandi sem hún er komin í eða jafnvel til að fá kynlíf frá henni.“

Kolbrún segir að fordæmi séu í smíðum þegar kemur að málsóknum vegna þessara brota.  „Í þeim málum sem hafa komið upp að undanförnu og eru í gangi núna höfum við fyrst og fremst notast við ákvæði sem er tiltölulega nýtt og kom inn þegar gerðar voru breytingar á hegningarlögunum til að taka á heimilisofbeldi fyrst og fremst. Þar er ákvæði sem fjallar um stórfelldar ærumeiðingar gegn maka eða fyrrum og það höfum við notað,“ segir hún. 

„Hvað varðar hefndarklámið þá tel ég að það þurfi að skoða vel og gæti hugsanlega varðað við fleiri ákvæði því það getur reynt á tilraun til brota á öðrum ákvæðum almennra hegningarlaga eins og til dæmis nauðgunarákvæðið. Það getur til dæmis verið nauðgun ef þú færð einhvern til að hafa samræði við þig með því að beita ólögmætri nauðung. Ég myndi segja að hóta því að birta svona kynlífsmyndband opinberlega ef þú stundir ekki kynlíf með viðkomandi geti fallið þar undi,“ segir Kolbrún.