Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Undirbúa aðgerðir eftir áramót

19.12.2019 - 16:30
Mynd: Ruv / Ruv
Formaður Sameykis segir að ef ekkert gangi í kjaraviðræðum fljótlega eftir áramót munu félagsmenn hefja undirbúning aðgerða í janúar sem gæti endað með verkföllum. Viðræður við opinbera starfsmenn hafa staðið yfir í 9 mánuði og ljóst að þær munu dragast fram á næsta ár.

Samningaviðræður í rúmt ár

Samhangandi kjaraviðræður hinna ýmsu félaga hafa nú staðið yfir í rúmt ár. Viðræður á almenna markaðinum hófust á haustdögum í fyrra. Þeim lauk eftir reyndar talsverð átök með svokölluðum lífskjarsamningi 3. apríl á þessu ári. Þá losnuðu samningar opinbera starfsmanna hjá ríki og bæ. Viðræður hafa staðið yfir síðan, reyndar með sumarhléi og það sér ekki fyrir endann á þeim. 9 mánuðir eru liðnir og samningar eru ekki enn í höfn. Gengur það?

„Nei, að sjálfsögðu ekki. Þetta gengur ekki,“ Segir Árni Stefán Jónsson formaður Sameykis.

 Auk opinbera starfsmanna eru samningar flugmanna við Air Connect, flugfreyja, flugumferðarstjóra og blaðamenn hafa ekki enn samið. Samningar þessara félaga hafa verið lausir lengi.

Hljóðið í félagsmönnum Sameykis er farið að þyngjast.

„Það má svo sem segja að ef við hefðum verið að gera eitthvað rosalega mikið á þessum níu mánuðum, að það hefði verið einhvers konar gangur eða mikilvægar viðræður hefðu átt sér stað. Þá hefði maður kannski sagt okey. Hins vegar hefur það bara alls ekki verið þannig,“ segir Árni Stefán.

Mynd með færslu
 Mynd: Arnar Páll Hauksson
Árni Stefán Jónsson

Orðin óþreyjufull

Innan BHM hafa félögin skipst í tvær fylkingar þegar kemur að kjaraviðræðunum. Anna María Frímannsdóttir er oddamaður í samninganefnd sem semur fyrir BHM 11 eða 11 félög innan BHM.

„Nei, við teljum þetta alls ekki viðunandi og við erum orðin mjög óþreyjufull að ná saman. Það er óróleiki í baklandinu en við erum kannski ekki komin á þann stað að íhuga aðgerðir. Við erum í samtali núna. Ef að hlutirnir ganga ekki þá er aldrei að vita. Þá tökum við stöðuna og sjáum hvað gerist,“ segir Anna María.

Mynd með færslu
Anna María Frímannsdóttir

Forgangsraða með öðrum hætti

Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, segir þegar hún lítur til baka að það hefðu mátt forgangsraða málum betur.

„Þetta er óneitanlega ankannaleg staða að þetta hafi tekið svona langan tíma en stundum þarf langan tíma til að semja. Ég hygg að það sem valdi mestu sé hve margir samningar eru lausir í einu. Það eru í raun allir samningar opinbera starfsmanna lausir og í mörg horn að líta hjá viðsemjendum okkar hjá ríkinu. Og svo held ég líka að minnsta kosti þegar ég lít yfir ári að það hefði verið betra að forgangsraða málum með öðrum hætti,“ segir Þórunn.

Mörg mál eftir

 Það er búið að semja við 4 BHM-félög. Félaga prófessora ríkisháskólanna hefur skrifað undir samning og atkvæðagreiðsla stendur yfir. Þegar liggja samningar á borðinu um styttingu vinnuvikunnar meðal dagvinnufólks. Hins vegar á eftir að semja um fjölmörg mál hjá þeim félögum sem enn eru við samningaborðið. Þá á við um styttingu vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki, jöfnun launa milli markaða og svo sjálfar launahækkanirnar svo eitthvað sé nefnt. Allt hangir þetta saman þar til endanlega verður skrifað undir.

Ekki orðið vör við nikla óþreyju

Kalt mat er að háskólamenn séu ekki farnir að velta mikið fyrir sér aðgerðum. Þeir fóru í verkfall 2015. Deilan endaði með kjaradómi. Þórunn Sveinbjarnardóttir segist ekki hafa orðið vör við mikla óþreyju meðal félagsmanna.

„Ég hef ekki orðið vör við mikla óþreyju sem segir mér að félagsmenn aðildarfélaganna vilja að við leggjum þá vinnu í þetta sem þarf og náum viðunandi samningum. Það sé þá betra að það taki lengri tíma að ná þeim,“ segir Þórunn.

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Þórunn Sveinbjarnardóttir

Hóta aðgerðum

Hins vegar er tónninn herskárri t.d. innan Sameykis. Í ályktun trúnaðarmanna Sameykis á mánudag kemur fram að langlundargeð félagsmanna sé senn á þrotum. Forkastanlegum seinagangi viðsemjenda þeirra verið að ljúka. Beitt verði öllum ráðum til að þrýsta á kröfurnar ef viðræðum fari ekki að ljúka fljótlega. Árni Stefán Jónsson, formaður Sameykis talar um að undirbúningur aðgerða gæti hafist í janúar ef engin framgangur verði í viðræðunum.

„Umræðan er farin að þyngjast verulega í okkar félagi. Ég er bara nýkominn af trúnaðarráðsmannafundi þar sem menn voru orðnir mjög óþolinmóðir. Við erum með ályktun núna þar sem er verið að ýta á það að förum að hugsa málin verulega eftir áramót. Það er það verklag sem við erum búin að hanna að við byrjum í janúar ef þetta fer ekkert að ganga að byrja að undirbúa einhvers konar þrýstiaðgerðir sem að lokum munu væntanlega leiða til verkfallsaðgerða. Það er ekki fyrsta atriðið en það gæti þó að lokum komið að því,“ segir Árni Stefán.

Myndin sem fylgir fréttinni er tekin á mótmælafundi BHM og hjúkrunarfræðinga 2015.

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV