Undarlegir tímar: Heimilisrými og almannarými

Mynd: Christian Bickel / Wikimedia Commons

Undarlegir tímar: Heimilisrými og almannarými

26.03.2020 - 08:24

Höfundar

Sigurlín Bjarney Gísladóttir segir að heimilisrýmið hafi tekið við af almannarýminu. „Nú förum við ekki lengur á milli staða, vinnum á einum stað, borðum hádegismat á öðrum, skreppum á bókasafnið og förum í ræktina og sund og jafnvel í bíóhús eða leikhús um kvöldið. Nú þurfa veggir heimilisins að sinna öllum þessum rýmum.“

Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifar:

Við skulum hverfa aftur í tímann. Við skulum lauma okkur inn í baðstofuna á íslenskan torfbæ í lok 19. aldar. Torfbærinn er í Austur-Meðalholtum í Flóahreppi.  Í litlu rúmi hægra megin við gluggann situr Kristín Hannesdóttir og prjónar. Hún er önnum kafin og tekur ekki eftir okkur. Kristín fæddist í þessu rúmi og hér hefur hún dvalið allt sitt líf. Í þessu rúmi hefur hún fætt 10 börn. Hér hefur hún 10 sinnum verið með 10 í útvíkkun. Hér sefur hún og vakir og vinnur. Oft yfirgefur hún rúmið og eldar og sinnir heyskap en þetta litla rúm er hennar eina einkarými. Við setjumst hljóðlega og fylgjumst með henni. Hún prjónar í eigin heimi, sönglar og brosir inn á milli. En hún er ekki ein, hún er aldrei ein, hér er alltaf fullt af öðru heimilisfólki. Þegar gesti ber að garði er hátíð því gestum fylgja fréttir, slúður og sögur. Allt líf Kristínar er þetta litla rúm og hér mun hún deyja. Þessi litli flötur hýsir heilt æviskeið, drauma, þrár, sorgir, vonbrigði, tilhlökkun, angist, gleði, líf og dauða.

Það skal tekið fram að þessi saga er sönn, Kristín Hannesdóttir bjó á þessum bæ og eyddi ævinni í sama rúminu. Nú læðumst við út úr bænum, og hverfum aftur til nútímans. Við komum okkur inn í hefðbundna íslenska steinsteypuíbúð á 21. öld. Á þessum undarlegu tímum fer allt úr skorðum. Almannarými á borð við kvikmyndahús, leikhús, tónleikasali, íþróttaleikvanga og veislusali eru gott sem tóm og flestir halda sig heima. Íbúðir fyllast af heimilisfólki sem þarf að verja öllum tíma sínum saman. Margir búa einir og fara sjaldan út og hjá þeim hefur lítið breyst, fyrir þá er eina breytingin að heimsóknum fækkar enn frekar.

Heimilisrýmið hefur tekið við af almannarýminu. Nú förum við ekki lengur á milli staða, vinnum á einum stað, borðum hádegismat á öðrum, skreppum á bókasafnið og förum í ræktina og sund og jafnvel í bíóhús eða leikhús um kvöldið. Nú þurfa veggir heimilisins að sinna öllum þessum rýmum, við vinnum, borðum, glápum, lesum og höngum á nokkrum fermetrum. Sumir stunda æfingar eða streyma tónleikum úr stofunni. Bækurnar í hillunni verða að duga sem bókasafn, baðkarið verður að koma í staðinn fyrir heita pottinn.

Við könnumst við hugtök eins og útópía og dystópía. Í útópíu er heimurinn fullkominn. Útópían er staðleysa, fyrirmyndarland, draumaland sem hvergi er til. Dystópían er, aftur á móti, andstæðan við útópíu. Dystópían er ímyndaður staður þar sem allt er eins slæmt og það getur verið. Dystópían hefur til fjölda ára verið vinsælt viðfangsefni í bókmenntum, leiklist og kvikmyndum með tilheyrandi hrolli. Margir hafa líkt þessum tímum Covid19-faraldursins sem distópískum tímum og dregið fram bækur og kvikmyndir sem fjalla um flágur og farsóttir.

Franski heimspekingurinn Michel Foucault kom fram með hugtakið heterótópía sem verður til úr tveimur grískum orðum, heter þýðir annar og topos er staður. Orðið þýðir sem sagt aðrir staðir eða önnur rými. Þau rými sem tilheyra heterótópíunni eru því sérstök rými sem oft eru líka almannarými, þannig geta staðir eins og bókasöfn, sundstaðir, tónleikastaðir og fleiri heyrt undir heterótópíuna. Það sem einkennir þessi rými er að þar gilda ákveðnar óskrifaðar reglur um æskilega hegðun og þessi rými virka eins og sér heimar út af fyrir sig. Heterótópían getur verið rými fyrir útvalda eða rými sem vissir hópar eru þvingaðir til að dvelja í. Þannig heyra bæði einkaskólar og fangelsi undir hugtakið. Ein tegund heterótópíunnar er krísu-heterótópían en sóttkví nútímans passar vel innan þess. Krísu-heterótópían er afmörkuð fyrir einstaklinga sem eru í krísu gangvart samfélagi annarra manna.

Orðið heimili er á grísku spíti og því er spurning hvort við ættum að búa til nýtt hugtak yfir sóttkvíarheimili nútímans og kalla þetta nýja rými Spítitópíu? Þessi spítitópía gæti minnt á útópíu því þar eru allir alltaf glaðir, fullir af orku, borða hollan mat, stunda æfingar í stofunni, spila borðspil án ágreinings og syngja í baði. Við skulum bara sleppa því að skoða dystópíska spítitópíu.

Rými eru lifandi fyrirbæri sem eru ýmist að þenjast út eða þrengjast. Núna á sér stað tímabundin þrenging. Allar minningar tengjast rými. Þessir tímar kallast á við tíma baðstofunnar, tíma torfbæjanna. Rúmið hennar Kristínar er á vissan hátt gengið aftur. Rúm fullt af draumum, tárum, hlátri, prjónum og sögum.

Allt breytist, sumt hratt og annað hægt. En það er alveg hundrað prósent öruggt að allt breytist. Við getum ekki tekið því sem gefnu að það hversdagslíf sem við lifum í dag verði veruleiki næstu kynslóða. Þegar við lítum til baka blasir við að allar aldir bera með sér umbreytingar og umbyltingar, atvinnuvegir hverfa og aðrir taka við, rými færast úr stað hvort heldur sem er vegna jarðskjálfta, eldgosa, farsótta eða sögulegrar þróunar.

Þessir tímar heimta orð sem byrja á sam. Orð eins og samfélag, samvera, samræða, samstarf, samstaða, samábyrgð, samhygð og samúð. Það er nauðsynlegt að vera raunsær en draumar, vonir og þrár eru líka nauðsynleg hjálparmeðlöl. Hugarflug, draumar og þrár eru sálræn viðspyrna á faraldurstímum. Þá er hægt að kyrja setningar eins og þessar: Allt er eins og það á að vera. Það verður allt í lagi. Allt er eins og það á að vera. Það verður allt í lagi.

Lóan er komin og sumardagurinn fyrsti nálgast. Ég trúi því að í ár muni birta til með haustinu, vorið kemur í haust.

 

Í íslenskri orðabók er orðið brjótsvit skilgreint sem meðfætt vit eða náttúrugreind. Mér þykir viðeigandi að ljúka þessu á mínu eigin ljóði sem heitir Brjóstvitið milli okkar.

Brjóstvitið býr ekki í brjóstinu
dvalarstaður þess er víða
það dvelur í innvortisrýminu en líka milli okkar
það býr í tengingum, samskiptum
það ferðast um á öllum farrýmum
leggur undir sig öll sætin
það lúrir í brjóstvösum

Brjóstvitið býr í þeim sem hafa tvö brjóst, þrjú, eitt og engin
geirvörtur koma málinu ekki við

Það teikar bíla, sest á bögglabera og leggur undir sig
heilu bíósalina
tónleikasalina
íþróttahallirnar
verslunarmiðstöðvar
situr á öllum
skrifstofustólum, borðstólum, hægindastólum og kollum

Það hangir í þakskeggjum
kirkjugörðum
á róluvöllum

Það dansar frá sér alla rænu
það sefur hjá öllum
og stækkar þegar hönd mætir hönd
þegar þreytt höfuð fær að hvíla á öxl

(Undrarýmið, 2019)

 

Tengdar fréttir

Pistlar

Nándin á tímum tveggja metra fjarlægðar

Pistlar

Maðurinn í skóginum

Sjónvarp

Survivor á tímum #metoo

Pistlar

Ísland er óafsakanlega dýrt land