Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

„Undarleg menntapólitík“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Þetta er heljarhögg fyrir Bláskógabyggð og skólasamfélagið á Laugarvatni og gríðarleg vonbrigði, ég á varla til orð”, segir Helgi Kjartansson oddviti Bláskógabyggðar um ákvörðun Háskóla Íslands að flytja námsbraut í íþrótta og heilsufræði frá Laugarvatni til Reykjavíkur. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar blés til aukafundar vegna málsins og harmar ákvörðun Háskóla Íslands.

“Röksemdir HÍ fyrir þessum flutningi halda ekki vatni”, segir Helgi Kjartansson. Rektor talar  mikið um að þetta snúist um fjármagn. Ég hef verið á fundi með þingmönnum og stjórnendum HÍ þar sem þingmenn sögðust geta útvegað meira fé. Mér finnst verst er að HÍ skuli ekki segja hver raunveruleg ástæða fyrir þessu er. Þetta snýst ekki um fjármagn eða staðsetningu, þarna er einhver menntapólitík í gangi sem ég átta mig ekki á”.

Vantrú og vonbrigði

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar lýsir vantrú og vonbrigðum í bókun aukafundarins: “Það er okkur óskiljanlegt að Háskóli Íslands vilji ekki fara í öfluga og markvissa markaðssetningu á námi í íþrótta- og heilsufræði til að fjölga nemendum eins og starfsmenn skólans, nemendur, þingmenn og sveitarstjórn Bláskógabyggðar hafa ítrekað lagt til. Að flytja starfsemina til Reykjavíkur mun ekki leysa þann vanda sem við er að etja. Það læðist að okkur sá grunur að aðrar ástæður en staðsetning, hagræðing rekstrar og fækkun nemenda séu ástæða þessarar ákvörðunar. Engin haldbær rök eru fyrir þessari ákvörðun háskólaráðs enda hefur allt ferlið í kringum þessa ákvarðanatöku verið með undarlegasta móti“.

 

 

Samúel Örn Erlingsson
Fréttastofa RÚV