Undanþágur fyrir viðkvæmustu þjónustuna

17.02.2020 - 19:31
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Sviðsstjórar velferðarsviðs og skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar lýsa áhyggjum af áhrifum verkfalls Eflingar á starfsemi skóla og velferðarþjónustu.

Regína Ástvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs, lýsir miklum áhyggjum af áhrifum verkfallsins á umönnun. „Við höfum auðvitað fengið undanþágur vegna alvarlegustu og viðkvæmustu þjónustunnar.“ Eftir situr að fjöldi eldri borgara fær ekki húsþrif eða baðþjónustu.

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs, segir að verkfallið hafi áhrif á starfsemi allra leikskóla í borginni og á mötuneytisþjónustu og ræstingu í grunnskólum. Hann segir að þolmörkin í grunnskóla liggi fyrst og fremst hjá fjölskyldunum sjálfum. Hann segir að eftir því sem verkföllin verði lengri í grunnskólum geti komið til þess að loka þurfi einhverjum skólum, það verði þó mjög mismunandi frá einum skóla til annars.

Á fundi í dag var farið yfir stöðuna í grunnskólunum og hugsanleg viðbrögð. „Við erum búin að ákveða í það minnsta að meta aðstæðurnar í hverjum skóla í samstarfi við heilbrigðiseftirlitið.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi