Una útgáfuhús gefur út J.M.Coetzee

Mynd:  / 

Una útgáfuhús gefur út J.M.Coetzee

14.05.2019 - 10:16

Höfundar

Þó Una útgáfuhús sé nokkuð nýtt af nálinni hefur verið mikið um að vera þar á bæ frá stofnun. Nýlega hlaut útgáfan þýðingastyrk til að gefa út verkið Beðið eftir barbörunum eftir nóbelsverðlaunahafann J.M. Coetzee. Stefnt er að útgáfu bókarinnar í haust.

Miðstöð íslenskra bókmennta tilkynnti nýverið um þýðingarstyrki ársins en á meðal þeirra verka sem hlutu styrk er bókin Beðið eftir barbörunum eftir suðurafríska nóbelsverðlaunahafann J. M. Coetzee. Hún verður gefin út á haustdögum á vegum lítillar og glænýrrar útgáfu, Unu útgáfuhúss, sem sækir hratt í sig veðrið. Fyrr á árinu kom bókin Undir fána lýðveldisins eftir Hallgrím Hallgrímsson út á vegum Unu en það var fyrsta bók útgáfunnar. Næst á dagskrá er safnritið Það er alltaf eitthvað sem inniheldur smásögur eftir ritlistarnema í Háskóla Íslands. Allt stefnir því í að í haust verði útgefnar bækur Unu orðnar þrjár talsins og þeim fari fjölgandi.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia commons
J.M. Coetzee höfundur bókarinnar

Óvenjuleg og áhrifamikil 

„Beðið eftir barbörunum er ein óvenjulegasta og áhrifamesta skáldsaga sem ég hef lesið og  J. M. Coetzee er í miklu upphaldi hjá mér,“ segir Einar Kári Jóhannsson einn fjögurra stofnenda útgáfunnar, ánægður með styrkinn. Einar Kári segist fyrst hafa fengið veður af því að bókin hafi verið þýdd á íslensku þegar hann frétti að hún hefði lesin í útvarpinu undir titlinum Við bíðum árið 1984. Hún var þýdd af Sigurlínu Davíðsdóttur sem einnig las hana upp fyrir útvarpið, en bókin kom þó aldrei út á bók í íslenskri þýðingu. „Við hjá Unu útgáfuhúsi ákváðum að hafa samband við Sigurlínu og komumst að því að handritið væri til í einu vélrituðu eintaki. Við gerðum samning við hana um að hún myndi skrifa upp þýðinguna og endurskoða hana jafnóðum.“ Það er Rúnar Helgi Vignisson sem ritstýrir þýðingunni og vinnsla á textanum er núþegar í fullum gangi. Rúnar hefur áður haft góð kynni af bókum Coetzee en hann þýddi bæði  bæði Vansæmd og Barndóm eftir höfundinn. „Okkur fannst ekki annað hægt en að hann kæmi að þessu ferli,“ segir Einar.

Innlegg í baráttuna gegn ríkjandi ástandi

Beðið eftir barbörunum kom út í Suður-Afríku árið 1980, þegar aðskilnaðarstefnan var enn við líði, og var verkið talið kröftugt innlegg í baráttuna gegn ríkjandi stöðu. „Sagan fjallar um dómara sem er hæstráðandi í litlu þorpi á mærum sem skilja að þá sem telja sig siðað fólk og svo hina sem skilgreindir eru af þeim fyrr nefndu sem barbarar. Í upphafi sögunnar kemur hershöfðingi frá höfuðborginni og brýtur upp jafnvægið í þorpinu með hræðsluáróðri um yfirvofandi árás barbara. Það sem gerist í kjölfarið mun reyna á persónur og mörk þess hversu langt er hægt að ganga í valdbeitingu.“ Í fyrstu virðist sagan gerast á nýlendutímanum í Afríku en Coetzee leikur á lesendur svo að í sögunni er nær algjört tímaleysi og hún er hvergi staðsett. „Þannig veður hún ansi sterk táknsaga um þörf mannsins til að flokka sig í „við“ og „hinir“ sem á heldur betur við í dag.“

Þýðingastyrkir skipta lykilmáli

„Okkur dreymir um að gefa út mikilvægar og merkilegar bækur sem geta kannski kallast „hliðar-meistaraverk“, það er að segja ekki frægustu bókmenntaverk 20. aldar; heldur stórbrotin skáldverk sem eiga enn eftir að rata til margra.“ Einar Kári segir þýðingastyrk sem þennan skipta lykilmáli fyrir litlar útgáfur en einnig fyrir lesendur og íslenskar bókmenntir.

„Það þarf ekki annað en að renna yfir þær bækur sem fengið hafa styrk í gegnum árin til að sjá að þar eru á ferðinni frábær bókmenntaverk; bæði eftir nýja og spennandi höfunda sem og aldagömul klassík. Lesendur á íslensku græða mikið og þýðingar hafa auðvitað áhrif á hvernig við skynjum heiminn og hvernig við skilum reynslu okkar af lífinu hérna á íslandi í gegnum bókmenntir.“

Í apríl ræddi Egill Helgason við Einar Kára og Kristínu Maríu Kristinsdóttir, sem eru meðal stofenda útgáfunnar, um Undir fána lýðveldisins eftir Hallgrím Hallgrímsson. Innslagið má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Leðurblökumaðurinn fær þýðingarstyrk

Bókmenntir

Skiptar skoðanir um ný bókmenntaverðlaun

Bókmenntir

Heimspekin og kjarnorkuváin í Múmíndal

Bókmenntir

Alþjóðleg verðlaun kennd við Halldór Laxness