Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Umsátrinu í Dhaka lokið, árásarmenn fallnir

02.07.2016 - 05:21
epa05402248 Bangladeshi security forces stand guard as they seal off the streets close to a Spanish resturant, following a hostage taking, in Dhaka, Bangladesh, late 01 July 2016. Two police officials have been killed during the encounter while some
 Mynd: EPA
Hundruð þungvopnaðra her- og lögreglumanna réðust í dögun að og inn í kaffihúsið í Dhaka í Bangladess, þar sem hryðjuverkamenn tóku minnst 20 gísla í gær. Sprengingar og skothríð skóku næsta nágrenni kaffihússins þegar öryggissveitirnar réðust til atlögu. Fullyrt er að allir árásarmennirnir hafi fallið og talsmaður hersins segir aðgerðum að fullu lokið. 13 gíslum hafi verið bjargað úr klóm hryðjuverkamannanna, þar á meðal þremur útlendingum. Um örlög annarra gísla er ekki vitað enn.

Fjölmiðlar eystra segja fimm lík hafa fundist í kaffihúsinu. Sjónarvottar herma að skotbardaginn hafi staðið í um það klukkustund.  Talsmaður sérsveitar hersins, sem fór fremst í flokki öryggissveitanna í morgun, sagði í sjónvarpsviðtali í morgunsárið  að nokkrir hafi fallið í árásinni, þar á meðal minnst sex úr hópi hryðjuverkamannanna. Nýjustu fregnir herma að allir gíslatökumennirnir hafi verið felldir í aðgerðum hersins.

Kaffihúsið er í sendiráðahverfi höfuðborgarinnar. Talið er að átta eða níu menn hafi ráðist þangað inn að kvöldi föstudags, laust eftir hádegi að íslenskum tíma. Ítalski sendiherrann í Dhaka segir að líklega hafi sjö Ítalir verið á kaffihúsinu þegar hryðjuverkamennirnir réðust til atlögu. Tveir lögreglumenn féllu og allt að 30 slösuðust í fyrri tilraun lögreglu til að ráða niðurlögum árásarmannanna. Hryðjuverkasamtökin Daesh, sem kenna sig við íslamskt ríki, hafa þegar lýst árásinni á hendur sér. 

Fréttin hefur verið uppfærð.

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV