Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ummæli um hinsegin fólk rannsökuð

10.11.2015 - 08:22
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Samtökin '78 fagna þeirri ákvörðun ríkissaksóknara að láta Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu rannsaka ummæli tíu einstaklinga sem Samtökin '78 kærðu í apríl fyrir hatursorðræðu í garð hinsegin fólks.

Samtökin kærðu ummæli fólksins til Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem tilkynnti samtökunum í september að kærunum hefði verið vísað frá. Forsvarsmenn samtakanna sættu sig ekki við þá niðurstöðu lögreglunnar og kærðu ákvörðunina til ríkissaksóknara. Niðurstaða ríkissaksóknara var að lögregla skyldi rannsaka hvort ummælin væru refsiverð. Í yfirlýsinu frá Samtökunum '78 segir að ákvörðun ríkissaksóknara sé áfangasigur í málinu. Þar segir að ummælin sem voru kærð séu sérlega gróf og til þess fallin að vega að rétti og öryggi hinsegin fólks, því sé mikilvægt að fá úr því skorið fyrir dómstólum hvort slík orðræða teljist refsiverð.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV