Ummæli Sveinbjargar bæði óheppileg og klaufsk

07.08.2017 - 09:46
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra, mætir á fund forseta til að ræða stöðuna í stjórnarmyndunartilraunum, 2. desember 2016.
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að ummæli oddvita flokksins í Reykjavík um börn hælisleitenda, séu óheppileg og klaufsk og endurspegli ekki stefnu flokksins. Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti Framsóknarmanna og flugvallarvina í borgarstjórn, sagði í útvarpsviðtali í vikunni að aðstoð við börn hælisleitenda væri sokkinn kostnaður. Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, flokkssystir hennar, gagnrýndi ummæli Sveinbjargar í sjónvarpsfréttum RÚV á laugardag.

Sigurður Ingi segir að ummæli Sveinbjargar endurspegli ekki stefnu flokksins. „Nei engan veginn, við höfum byggt okkar umræðu meðal annars á síðasta flokksþingi á því að aðlögun barna af erlendum uppruna séu okkar samfélagi mjög mikilvæg og að menntakerfið sé besti vettvangurinn til þess. Ég lít svo á að þessi ummæli Sveinbjargar séu bæði óheppileg og klaufsk, maður talar ekki svona um börn,“ segir Sigurður Ingi.

Guðfinna Jóhanna var spurð að því í gær hver yrði í forystu fyrir flokkinn í næstu borgarstjórnarkosningum. Hún sagði að ef hún byði sig fram væri það eingöngu til að gefa kost á sér í fyrsta sætið. Er skoðanaágreiningurinn í þessu máli til marks um að kosningabaráttan sé að byrja?

„Nei, ég held að þessi umræða snúist ekkert um það. Ekki neitt. Ef maður hlustar á þetta viðtal getur maður alls ekki séð það út úr þessu. Þetta voru klaufsk og óheppileg ummæli sem maður notar ekki um börn, stefna Framsóknarflokksins er mjög skýr,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson.

sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi