Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ummæli Jóns Steinars vógu ekki að æru Benedikts

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Ummæli um Benedikt Bogason hæstaréttardómara í bók Jóns Steinars Gunnlaugssonar, hæstaréttarlögmanns og fyrrum hæstaréttardómara, Með lognið í fangið, voru ekki til þess fallin að vega svo að æru Benedikts, að það hafi farið út fyrir mörk tjáningarfrelsisins, segir í dómi Landsréttar frá því í dag. Jón Steinar var því sýknaður í málinu.

Benedikt vildi að fimm ummæli yrðu dæmd dauð og ómerk og krafðist hann þá tveggja milljóna króna í miskabætur.

Benedikt taldi að Jón Steinar hefði ásakað sig, og meirihluta dómara í máli Baldurs Guðlaugssonar, fyrrverandi ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu, um dómsmorð. Varla væri hægt að saka dómara við æðsta dómstól þjóðarinnar um alvarlegra brot í starfi. Baldur hlaut tveggja ára fangelsisdóm í Hæstarétti árið 2012 fyrir innherjasvik og brot í opinberu starfi. 

Lýsir eigin skoðunum og ályktunum

Í dómi Landsréttar segir að tjáningarfrelsi takmarkist af réttindum eða mannorðum annarra samkvæmt Stjórnarskrá. Alvarlegar ásakanir í garð dómaranna í málinu felist í ummælunum séu þau virt ein og sér.

Hins vegar verði að líta til samhengis ummælanna og hvernig þau hafi verið sett fram. Í dómnum segir að þótt ummælin hafi á sér mynd staðhæfinga um staðreyndir, verði að telja að Jón Steinar felli með þeim „gildisdóm með því að lýsa eigin skoðunum og ályktunum sem hann hefur dregið“ af málinu.

Játa verði mönnum rúmu frelsi til tjáningar um störf dómstóla, sem eigi ríkt erindi við almenning. Ekki verði talið að Jón Steinar hafi svo vegið að æru Benedikts að það hafi farið út fyrir mörk tjáningarfrelsisins. Þá njóti einnig rétturinn til að tjá ósanngjörn, móðgandi og stuðandi ummæli verndar Stjórnarskrár. Dómur héraðsdóms var því staðfestur og Jón Steinar sýknaður af kröfum Benedikts. 

Sýknaður í héraði

Benedikt stefndi Jóni Steinari fyrir tveimur árum, viku eftir að bókin var gefin út. Í bókinni gagnrýnir Jón Steinar Hæstarétt harðlega og fullyrðir að dómurinn hafi brugðist þjóðinni við meðferð dómsmála í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Jón Steinar sakaði hæstaréttardómarann í kjölfarið um að reyna að þagga niður í gagnrýni hans á störf réttarins með stefnunni.

Í júní í fyrra var Jón Steinar svo sýknaður í Héraðsdómi Reykjaness. Dómurinn sagði að meta þyrfti skrifin í heild sinni. Hvergi væri Benedikt, eða aðrir dómarar í kaflanum þar sem ummælin koma fram, sakaðir um refsiverða háttsemi, þótt Jón Steinar taki á stundum sterkt til orða. Hugtakið dómsmorð hafi verið notað í óeiginlegri merkingu þess. Benedikt áfrýjaði málinu til Landsréttar í kjölfarið.