Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ummæli Björgvins gætu kostað bann

Mynd: Tomasz Marian Kolodziejski / RÚV

Ummæli Björgvins gætu kostað bann

24.05.2019 - 19:00
Björgvin Stefánsson, leikmaður KR í Pepsí Max-deild karla í fótbolta, gæti átt yfir höfði sér leikbann vegna fordómafullra ummæla sem hann lét falla í lýsingu á leik í 1. deild. Framkvæmdastjóri Knattspyrnusambands Íslands hefur vísað málinu til aganefndar KSÍ.

 

Björgvin Stefánsson, sem hefur skorað þrjú mörk í fyrstu fimm leikjum KR í Pepsi Max-deild karla í fótbolta í sumar, var fenginn til að lýsa viðureign Hauka og Þróttar í Inkasso-deildinni í gær á Youtube-rás Hauka. Björgvin, sem er uppalinn í Haukum, lét eftirfarandi ummæli um Archange Nkumu, leikmann Þróttar, sem er dökkur á hörund, falla í lýsingunni:

„Þetta er það sem ég er alltaf að segja. Það er svo stutt í villimannseðlið hjá svarta manninum."

Klara Bartmarz, framkvæmdastjóri Knattspyrnusambands Íslands, segir ummælin alvarleg og málið sé litið alvarlegum augum hjá KSÍ.

„Ég hef vísað ummælunum, í krafti míns embættis, til aga- og úrskurðarnefndar og þar fara þau í þann farveg sem reglugerðir gera ráð fyrir. Við tökum öll þau tilvik sem upp koma og tengjast mismunun, við fordæmum allt slíkt.“

Klara vill ekki segja hvaða viðurlög gætu legið við broti sem þessu. Málið sé komið úr hennar höndum og á borð aga- og úrskurðarnefndar.

Aðeins eru um tveir mánuðir síðan Aganefnd KSÍ tók mál Þórarins Inga Valdimarssonar, leikmanns Stjörnunnar fyrir. Þórarinn lét þá fordómafull ummæli falla um geðsjúkdóma í garð Ingólfs Sigurðssonar, leikmanns Leiknis. Þorvaldur Árnason dómari heyrði ummælin og rak Þórarin umsvifalaust af velli með rautt spjald. Aganefnd refsaði Þórarni ekkert aukalega vegna ummælana. 

„Það er alls ekki sambærilegt. Þar varð dómarinn var við atvikið og tekur ákvörðun og tekur á því innan vallar og gefur spjald fyrir það og því fer það til aganefndar sem agamál. Þetta [ummæli Björgvins] fer til aganefndar sem mögulega kærumál þannig að þetta eru gjörólík mál. Ég hafði enga aðkomu að hinu málinu,“ sagði Klara.

Bæði Haukar og KR hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem ummæli Björgvins eru hörmuð. Sjálfur baðst Björgvin undan viðtali við RÚV í dag en á samfélagsmiðlum hefur Björgvin beðist afsökunnar á því sem hann kallar heimskuleg ummæli sem voru sögð í hugsunarleysi. Búist er við því að mál Björgvins verði tekið fyrir hjá aganefnd á þriðjudag. 

 

Tengdar fréttir

Fótbolti

KR harmar ummæli Björgvins

Íþróttir

Með kynþáttaníð í beinni útsendingu