Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Umhverfisstofnun vildi loka United Silicon

19.04.2017 - 06:17
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Þorsteinsson - RÚV
Umhverfisstofnun tilkynnti forsvarsmönnum United Silicon með bréfi þann 12. apríl að ekki yrði hjá því komist að loka þyrfti verksmiðjunni þar sem frá henni streymdi fjöldi efna sem gætu haft langtímaáhrif á heilsufar. Hætt var við lokunina þar sem stjórn fyrirtækisins ákvað að ræsa ekki ljósbogaofninn í næsta óvænta ofnstoppi sem myndi vara lengur en í klukkustund.

Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í morgun. Þar segir einnig að skömmu fyrir páska bárust Umhverfisstofnun um áttatíu kvartanir til viðbótar við aðrar 300 sem áður höfðu borist. Framleiðsla í verksmiðju United Silicon liggur niðri eftir eld sem kviknaði aðfaranótt þriðjudags.

Ekki liggur fyrir hversu lengi sú stöðvun mun vara. Fram kom í fréttum RÚV í gær að forsvarsmenn verksmiðjunnar íhuga nú aðgerðir gegn framleiðandanum sem seldi þeim búnaðinn. „Búnaðurinn hefur ekki virkað eins og hann átti að virka. Við kaupum verksmiðjuna nánast til þess að virka en því er nú verr og miður þá hefur hún ekki gert það eins og ætlað var og það hefur tekið allt of langan tíma til að ná þessum hnökrum af,“ sagði Kristleifur Andrésson, umhverfis-og öryggisstjóri verksmiðjunnar.

Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra sagði á Facebook að hún vildi að Umhverfisstofnun lokaði kísilverinu á meðan rannsóknir á mengun, vinnuaðstæðum og fjármögnun færu fram. Kristleifi finnst það ekki mjög faglegt af ráðherranum. „Ég held að við séum ekki að tjá okkur um Facebookfærslur fólks, það er bara annarra að gera það.“

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV