Umhverfismeðvituð tíska heitasta trendið 2020

Mynd: Pinterest / Pinterest

Umhverfismeðvituð tíska heitasta trendið 2020

07.01.2020 - 13:45
Nýtt ár þýðir nýir straumar og nýjar stefnur í tískunni. Þó svo að klassísk munstur og efni séu á meðal þess sem verða heitt árið 2020 þá er það umhverfisvitundin sem verður stærsta „trend“ ársins.

Karen Björg Þorsteinsdóttir fór yfir það sem líklegt er til vinsælda á árinu 2020 í tískuhorni vikunnar. 

1. Græn pressa
Sífellt fleiri eru orðnir meðvitaðir um umhverfið og þau áhrif sem það hefur að kaupa mikið af fötum. Það ætti því kannski ekki að koma á óvart að umhverfismeðvitund þegar kemur að fatakaupum verður heitasta „trend“ ársins 2020. Hvort sem það felst í því að kaupa notað, kaupa minna eða sauma fötin sín sjálfur úr gömlum gardínum þá ættu flestir að geta fundið eitthvað sér við hæfi til að standa undir grænu pressunni.

2. Pleður
Pleður verður eitt af heitari efnum ársins 2020 hvort sem er í buxum, peysum, pilsum, kápum eða bolum. Það þarf heldur ekki að vera svart heldur eru fleiri litir meira en velkomnir. 

3. Aftur á áttunda áratuginn
Pleðrinu tengt þá verður skírskotun í áttunda áratuginn (e. the 70's) áberandi á árinu. Litir eins og sinnepsgulur, appelsínurauður og brúnn koma sterkir inn, tvíhneppt jakkaföt og útvíðar buxur sem einhverjir gætu helst tengt við sænsku ofurhljómsveitina ABBA. Í ljósi umhverfismeðvitundarinnar er aldrei að vita nema að flíkur af þessu tagi sem þú gætir nýtt þér sé að finna í fataskápum foreldra þinna eða hjá ömmu og afa

Mynd með færslu
 Mynd: Pinterest
Appelsínugulur, brúnn, flauel og pleður eru meðal trenda ársins 2020.

4. Púffaðar axlir
Puffaðar axlir koma líka sterkar inn, bæði mjúkar og meðfærilegar sem og aðeins formaðri gerðir. 

5. Doppur
Mynstur næsta árs, sem tekur við af hlébarðamynstrinu, er doppótt. Þó svo þú tengir kannski doppur oft við börn eða trúða þá er ekkert mál að gera slík mynstur þannig að þau falli að þinni tísku. 

6. Mokkasínur
Mokkasínurnar halda áfram sigurför sinni hjá öllum kynjum en Karen Björg tekur fram að það sé engin regla að vera á tánum í slíkum skóm, sokkar eru leyfðir.

Mynd með færslu
 Mynd: Pinterest
Doppur, djarfar axlir og mokkasínur verða vinsælar 2020

7. Þykkbotna skór
Sjálf heldur Karen svo að þykkbotna skór komi aftur á þessu ári. Ekki háir hælar með þykkum botni og ekki skór með mjög þykkum botni heldur skór með um það bil tvöföldum botni. 

8. Lægð í lógómaníu
Í takt við umhverfisvitundina þá telur Karen Björg að fólk fari að versla sér frekar gæðaefni en gæðamerkjavöru. Stærri merki virðast nú þegar vera orðin meðvituð um þetta og farin að setja minni lógó á fatnað frá sér. 

9. Prjónafatnaður
Karen Björg segir prjónaðan fatnað, peysur, kraga og fleira, sækja í sig veðrið. Hnepptar peysur og alls konar prjónaðar flíkur. 

10. Gönguskór
Síðast en ekki síst nefnir Karen gönguskó sem hún telur að geti tekið við af skóm eins og Timberland. Búandi á Íslandi ættu flestir að kannast við hausverkinn sem fylgir því að velja sér skófatnað í janúar og febrúar þar sem stutt er á milli fannfergis og mígandi rigningar. Það er ómögulegt að vera í strigaskóm því þá blotnar maður í fæturna og erfitt að vera í stígvélum því þá flýgur maður á hausinn í hálkunni.

Mynd með færslu
 Mynd: Pinterest
Þykkbotna skór, prjónaður fatnaður og gönguskór.

Hlustaðu á tískuhorn vikunnar í spilaranum hér fyrir ofan.