Umhverfishorfur fyrir 2016

Mynd: RÚV / RÚV

Umhverfishorfur fyrir 2016

05.01.2016 - 15:02

Höfundar

Stefán Gíslason fór lítur fram á veginn í pistli dagsins.

 

Horfurnar 

Þegar líður að áramótum líta menn gjarnan um öxl og velta fyrir sér hvort mannkynið hafi „gengið til góðs götuna fram eftir veg“, eins og þar stendur. Á sama hátt tíðkast það í upphafi nýs árs að reyna að rýna inn í móðu framtíðarinnar, þó ekki væri nema inn í næsta tólf mánaða tímabil. Þetta snýst ekki endilega um að þykjast vera einhver völva sem sér fyrir óorðna atburði, heldur miklu frekar um að sjá fyrir sér hvaða framhald sé líklegast eða rökréttast út frá því sem gerst hefur síðustu mánuði.

Árið 2015 var að margra mati tímamótaár í umhverfislegu tilliti. Þar ber sjálfsagt hæst loftslagsráðstefnuna í París, þar sem leiðtogar þjóða heims komu sér saman um að taka ærlega til hendinni til að koma í veg fyrir að meðalhitastig á jörðinni hækki um meira en 2°C miðað við það sem var fyrir iðnbyltinguna. Þetta hefur svo sem verið nefnt áður, en samstaðan sem náðist í París virðist miklu víðtækari og almennari en dæmi eru um. Árið 2016 hlýtur að mótast að talsverðu leyti af því að vera fyrsta árið eftir París, alla vega ef maður trúir því að stóru orðin í París hafi eitthvert vægi í framhaldinu.

Parísarsamkomulagið felur væntanlega ekki í sér neinar byltingar strax á árinu 2016, einfaldlega vegna þess að fresturinn til að vinna verkin er lengri en svo. Hins vegar hljóta stjórnvöld um allan heim að leggja hart að sér á þessu nýju ári við að móta aðgerðaáætlanir í kjölfar aðgerðaloforðanna sem lögð voru fram fyrir ráðstefnuna í París. Því má líklega reikna með að árið 2016 fari að miklu leyti í að útskýra og útfæra það sem á að gera, frekar en beinlínis að gera það. Þetta er líka eðlilegt fyrsta skref, því að auðvitað þarf maður að vita hvert maður ætlar áður en maður leggur af stað þangað.

 Hvað gerist hér heima?

Umhverfisverkefnin sem bíða íslenskra stjórnvalda á þessu nýbyrjaða ári verða væntanlega keimlík verkefnum annarra þjóða. Nokkur af mikilvægustu verkefnunum endurspeglast í sóknaráætlun ríkisstjórnar Íslands í loftslagsmálum sem kynnt var í nóvembermánuði síðastliðnum, en þar kemur m.a. fram að aðgerðaáætlun um orkuskipti á landi og á hafi verði lögð fram á Alþingi núna á vorþinginu. Inn í þessa áætlun verður m.a. fellt sérstakt átak um eflingu innviða fyrir rafbíla og sömuleiðis verður sett til hliðar „fjármagn til að tryggja að hægt verði að vinna að þessu verkefni strax“, eins og það er orðað í sóknaráætluninni. Það þýðir væntanlega að hafist verði handa um raunverulegar aðgerðir strax á þessu ári. Þá verða einnig útbúnir vegvísar um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda í íslenskum sjávarútvegi og um minnkun losunar í landbúnaði. Væntanlega á þetta allt að gerast á árinu 2016, þó að það komi ekki beinlínis fram í sóknaráætluninni. Á árinu 2016 á líka að auka framkvæmdir í skógrækt og landgræðslu til að binda meira kolefni úr andrúmsloftinu og sömuleiðis á að ráðast í fyrstu verkefnin í sérstöku átaki í endurheimt votlendis. Haustið 2016 er svo von á vísindaskýrslu um afleiðingar loftslagsbreytinga fyrir náttúru, efnahag og samfélag á Íslandi og loks er fyrirheit í sóknaráætluninni um að Ísland leggi fram eina milljón Bandaríkjadala í alþjóðlega græna loftslagssjóðinn á árunum 2016-2020, þó að þar sé reyndar ekki tilgreint hversu háa upphæð eigi að leggja fram á þessu nýbyrjaða ári.

Ef við höldum okkur við sóknaráætlun ríkisstjórnarinnar, þá má ætla að gerð verkefnislýsinga og útgáfa skýrslna verði meira áberandi hérlendis á þessu nýbyrjaða ári en beinar áþreifanlega aðgerðir. Hins vegar má sjá ákveðnar vísbendingar um það, bæði hérlendis og erlendis, að frumkvæði í umhverfismálum sé að færast frá ríkisstjórnum til atvinnulífsins og að einhverju marki til sveitarfélaga. Loftslagsyfirlýsingin sem á annað hundrað íslensk fyrirtæki skrifuðu undir seint á nýliðnu ári felur t.d. í sér fyrirheit um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og minnka myndun úrgangs. Og þetta á ekki að gerast bara einhvern tímann, heldur er ætlunin að sýna fram á mælanlegan árangur strax á þessu nýbyrjaða ári. Það getur sem sagt vel verið að atvinnulífið verði búið að setja í gang fjöldann allan af áþreifanlegum umhverfisverkefnum á meðan stjórnvöld eru enn að skrifa verkefnislýsingarnar sínar. En auðvitað tengist þetta allt einhvern veginn. Þannig munu stjórnvöld og atvinnulífið væntanlega vinna saman að ýmsum sameiginlegum markmiðum. Það bendir samt margt til þess að atvinnulífið sé komið með frumkvæðið sem áður var hjá stjórnvöldum.

 Atvinnulífið verður að taka þátt

Árið 2016 er ekki kosningaár í venjulegum skilningi þess orðs, þar sem að óbreyttu verður ekki kosið til Alþingis fyrr en árið 2017 og til sveitarstjórna 2018. Ástæðan fyrir því að ég nefni kosningar eða ekki-kosningar í þessu sambandi er sú, að það hvort tiltekin málefni hafi raunverulegt vægi í þjóðmálaumræðunni kemur einna skýrast fram í kosningabaráttu. Mál sem ekki ber á góma þar er þeim sem í hlut eiga væntanlega ekki ofarlega í huga. Hins vegar liggur fyrir að þjóðin mun kjósa sér nýjan forseta á þessu nýbyrjaða ári. Aðdragandi forsetakosninga gefur hins vegar ekki endilega til kynna hvaða málefni þyki mikilvægust. Það verður þó spennandi að sjá að hve miklu leyti umhverfismál muni bera þar á góma.

En svo við snúum okkur nú aftur að því frumkvæði sem atvinnulífið er líklega að taka í umhverfismálunum, þá gaf breska greiningarfyrirtækið Verdantix einmitt út áhugaverða skýrslu skömmu fyrir jól, þar sem greint er frá niðurstöðum könnunar á áformum fyrirtækja um útgjöld til umhverfis-, heilbrigðis- og öryggismála á árinu 2016. Um 75% af stjórnendum þeirra fyrirtækja sem könnunin náði til reiknuðu með að auka útgjöld til þessara málaflokka á þessu nýbyrjaða ári. Þar af stefna 10% að útgjaldaaukningu upp á 10% eða meira og 21% til viðbótar reiknar með 5-9% útgjaldaaukningu. Aðeins 3% aðspurðra reiknuðu með samdrætti. 

Í þessu liggur fyrirboði um verulegar breytingar, sem væntanlega verða mest áberandi í Evrópu, Miðausturlöndum og Indlandi, ef marka má könnun Verdantix.

Þegar rýnt er í skýrslu Verdantix kemur annað áhugavert í ljós. Hingað til hafa forsvarsmenn fyrirtækja alla jafna litið á útgjöld til umhverfis-, heilbrigðis- og öryggismála sem hálfgert neyðarúrræði til að uppfylla lágmarkskröfur með minnsta mögulega tilkostnaði. Nú ber hins vegar svo við að 36% aðspurðra líta fyrst og fremst á þessi útgjöld sem aðgerð til að bæta afkomu fyrirtækjanna, bæði til skamms tíma og til lengri tíma. Betri frammistaða í rekstri fyrirtækja og stuðningur æðstu stjórnenda við sjálfbærnimarkmið voru tilgreindar sem tvær helstu ástæðurnar fyrir áformum fyrirtækjanna um aukin útgjöld til þessara mála.

 Fyrirtæki framtíðarinnar í betra loftslagi

Það bendir sem sagt margt til að árið 2016 verði ár tíðinda í umhverfisgeiranum, ekki bara vegna aðgerða stjórnvalda og skyldna sem þau leggja atvinnulífinu á herðar, heldur miklu frekar vegna þess að menn eru loksins að átta sig á að umhyggja fyrir umhverfinu er forsenda þess að hægt sé að reka fyrirtæki af einhverju viti í framtíðinni. Það er hins vegar miklu erfiðara að spá fyrir um einstök atvik á árinu, svo sem um það hvort hleðslustöðvum fyrir rafbíla á Íslandi fjölgi um eina eða þrjátíuogeina, hvort ákvörðun verði tekin um að hætta við olíuleit á Drekasvæðinu eða í hvaða miðborgum umferð bensín- og dísilbíla verði bönnuð. Það þarf kannski völvu til að svara svoleiðis spurningum. Aðrir spámenn og pistlahöfundar verða að láta sér nægja að rýna í heildarmyndina – og sú mynd er mynd breytinga.