Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Umhverfi og loftslagsmál fá rúma 20 milljarða

12.09.2019 - 18:11
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Ríkisstjórnin eykur framlög til umhverfismála um rúman milljarð milli ára, samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs. Framlög til málaflokksins í heild eru rúmir 20 milljarðar króna. Tæplega hálfur milljarður aukalega fer í loftslagstengd verkefni. Umhverfis- og auðlindaráðherra ætlar að leggja fram tólf mál á komandi þingi.

Samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar verður 20,4 milljörðum varið til umhverfismála á næsta ári. Fram kemur á vef stjórnarráðsins að fjárframlög til málaflokksins hafa aukist um fjórðung undanfarin ár, sem hefur farið í aðgerðir í loftslagsmálum, uppbyggingu á friðlýstum svæðum og aukinni landvörslu. Gert er ráð fyrir meiri kaupum á heimahleðslustöðvum fyrir rafbíla og útleigu umhverfisvænna bifreiða.

455 milljónir í verkefni tengd loftslagsmálum

Framlög til umhverfismála hækka um milljarð milli ára, en þar eru ekki taldar hækkanir vegna launa- og verðlagsbóta, sem nema 400 milljónum. Umhverfis- og auðlindaráðherra birtir á vef sínum þær helstu áherslur sem hann ætlar að ráðast í á næsta ári í tengslum við fjárlagafrumvarpið. Fjármagn til loftslagstengdra verkefna verður aukið um 455 milljónir, sem er í samræmi við ákvæði í stjórnarsáttmálanum og fjármálaáætlun til 2024. Framlög til innviðauppbyggingar, rannsókna og vöktunar á náttúrunni verða aukin um 255 milljónir og landvarsla fær 270 milljóna innspýtingu. Hundrað milljónum aukalega verður varið í hringrásarhagkerfið, en markmiðið er að draga úr sóun, auka endurvinnslu og endurnýtingu og halda verðmætum eins lengi og hægt er í umferð. 

Stórt skref í átt að Parísarsamkomulaginu

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, ætlar að leggja fram tólf mál á komandi löggjafaþingi. Fyrst á blaði er frumvarp um breytingu á lögum um náttúruvernd, þar sem almannaréttur og innflutningur framandi lífvera fellur undir. Hann ætlar einnig að endurskoða lög um hollustuhætti og mengunarvarnir og lög um loftslagsmál. Það síðarnefnda snýr að evróputilskipun um losunarheimildir fyrirtækja í stóriðju og flugi. Einnig verða innleiddar tvær reglugerðir, önnur um sameiginlega ábyrgð og hin um landnotkun og skógrækt. Innleiðingin er lykilatriði í samkomulagi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins um sameiginlegt markmið á grundvelli Parísarsamningsins. 

Minnka úrgang og banna urðun

Ráðherra ætlar einnig að leggja fram frumvarp um meðhöndlun úrgangs, sem snýr að urðun og leiðum til að draga úr myndun úrgangs, samræmda flokkun og sérstaka söfnun, sem og bann við urðun tiltekins úrgangs. Þá leggur hann fram frumvarp um úrvinnslugjald og annað um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur. Þar verður lagt til að Endurvinnslunni beri að ná á landsvísu tölulegum söfnunarmarkmiðum fyrir einnota drykkjarvöruumbúðir. 

Þjóðgarðsstofnun í stað Vatnajökulsþjóðgarðs

Lög um villt dýr verða endurskoðuð í heild. Undir það falla lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Þá verður komið á fót Þjóðgarðastofnun sem tekur við verkefnum Vatnajökulsþjóðgarðs, þjóðgarðsins á Þingvöllum og verkefnum á sviði náttúruverndar á vegum Umhverfisstofnunar. Stofnunin færi með umsjón með rekstri þjóðgarða, friðlýstra svæða og annarra náttúruverndarsvæða í landinu en í frumvarpinu er gert ráð fyrir að viðhalda sjálfstæði í rekstri þjóðgarða og miðað er að því að efla aðkomu heimamanna að stjórnun verndarsvæða. 

Miðhálendisþjóðgarðurinn kominn á blað

Frumvarp um miðhálendisþjóðgarð verður lagt fram í febrúar. Þá verður stofnaður þjóðgarður á miðhálendinu, sem hefur legið fyrir í nokkurn tíma. Lögum um skilgreiningu á óbyggðum víðernum verður breytt, sem og lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun. Við innleiðingu laganna kom í ljós að ýmsir vankantar eru á þeim sem nauðsynlegt er að lagfæra. 

Markaðssetning sumra plastvara óheimil

Í apríl ætlar ráðherra að innleiða tilskipun ESB um minnkun umhverfisáhrifa af tilteknum vörum úr plasti. Í frumvarpinu verður kveðið á um ráðstafanir sem er ætlað að draga úr notkun tiltekinna plastvara og að auka vitund neytenda um plastvörur. Jafnframt verður markaðssetning tiltekinna plastvara gerð óheimil, innleiddar verða kröfur til hönnunar eða samsetningar tiltekinna plastvara, kröfur um sérstakar merkingar á tilteknum plastvörum og framleiðendaábyrgð tekin upp fyrir tilteknar plastvörur. Einnig verður lögð fram þingsályktunartillaga um framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár til fimm ára. Lagt er til að búa til skrá yfir þær náttúruminjar sem Alþingi ákveður að setja í forgang um friðlýsingu eða friðun á næstu fimm árum.