Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Umgjörð á heimsmælikvarða í stjörnuleiknum í Eyjum

Mynd: Magnús Atli Magnússon / RÚV/Landinn

Umgjörð á heimsmælikvarða í stjörnuleiknum í Eyjum

27.12.2019 - 12:20
Fullt var út úr dyrum þegar stjörnuleikurinn var haldinn í áttunda sinn rétt fyrir jól. Um er að ræða stærsta handboltaleik ársins, allavega í Vestmannaeyjum. „Þau undirbúa sig allt árið fyrir leikinn, þetta er þeirra leikur,“ segir Magnús Gunnar Þorsteinsson pabbi Katrínar Helenu Magnúsdóttur handboltakonu í Bláa liðinu. Landinn fór á leikinn.

Leikmenn sem eiga við einhvers konar fatlanir að stríða spila með og á móti núverandi og fyrrverandi leikmönnum úr meistaraflokki karla hjá ÍBV sem sjá líka um skipulagið. „Þetta er hugmynd sem kviknaði 2012 hjá okkur, hefur bara stækkað síðan og er eiginlega að springa út núna,“ segir Grétar Þór Eyþórsson skipuleggjandi. Venja er að safna fyrir gott málefni. Í ár ætlar hópurinn að safna sér fyrir ferð í sólina, til Tenerife.  

„Umgjörðin er eins og hún gerist á heimsmælikvarða. Það er ljósashow, karlakórinn syngur þjóðsönginn og það er allt lagt í þetta eins og á úrslitaleik HM, segir Grétar.“ Og þetta leynir sér ekki. Leikmenn fara í sjúkraþjálfun fyrir leik, hita upp, eru kynntir inn á völl með miklum tilþrifum og allt er þetta sýnt í beinni útsendingu á netinu. Meira að segja er stuðst við myndbandsdómgæslu eins og á stórmótum. 

Þegar búið var að kynna liðin inn á völl bárust óvænt tíðindi. Bláa liðinu hafði áskotnast nýr leikmaður á síðustu stundu. Alla leið frá Frakklandsmeisturum Paris Saint Germain var mættur landsliðsfyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson. Og hann var ekki eini landsliðsmaðurinn á svæðinu því Kári Kristján Kristjánsson leikmaður ÍBV og Íslands þjálfaði Bláa liðið. 

Ótrúlegt en satt lauk leiknum með jafntefli eins og í öll hin sjö skiptin og gleðin leyndi sér ekki þegar liðin lyftu bikarnum. „Þetta var mjög góður leikur en smá erfiður,“ segir Guðmundur Ásgeir Grétarsson í rauða liðinu sem spilaði bæði stöðu markmanns og miðjumanns. Þórhallur Þórarinsson í bláa liðinu tekur undir að leikurinn hafi verið erfiður. „Það datt einhver í gólfið og það vantar krafta.“