Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Umdeilt athæfi leikskólakennara á Akureyri

15.08.2019 - 14:22
Mynd með færslu
 Mynd: Andrés Jónsson
Mikið upphlaup varð meðal foreldra á Akureyri eftir að íbúi í bænum birti mynd af leikskólabörnum með kennurum sínum að leik í nánd við Glerárvirkjun.

„Vorum að keyra fram hjá Glerástíflu. Sáum leikskólakennara vera að lyfta börnum yfir girðinguna og leyfa þeim að leika sér við stífluna. Finnst þetta stórhættulegur leikur,“ skrifaði Andrés Jónsson með myndinni sem sjá má hér að ofan. 

Fjölmargir foreldrar höfðu samband við Fræðslusvið Akureyrarbæjar vegna málsins. Þá höfðu tæplega 80 deilt myndinni á Facebook þegar fréttin fór í loftið. 

Árni Bjarnason, starfsmaður Fræðslusviðsins segir í samtali við fréttastofu að þarna hafi verið á ferðinni 21 barn af leikskólanum Kiðagil. Með hópnum hafi verið 6 kennarar.

Hann segir tilgang ferðarinnar hafa verið að kenna börnum á umhverfi sitt og að engin hætta hafi verið á ferð. „Þetta er opið svæði og ekki verið að lyfta börnum yfir girðingu inn á lokað svæði.“

Árni segir kennara á leikskólanum slegna yfir viðbrögðum á samfélagsmiðlum. Þá segir hann unnið að því að hringja í foreldra og útskýra málið.  

odinnso's picture
Óðinn Svan Óðinsson