Umdeild virkjunaráform í fyrirhuguðum þjóðgarði

11.01.2020 - 20:59
Mynd með færslu
 Mynd: Landsvirkjun - YouTube
Framkvæmdastjóri Landverndar segir áætlanir um að reisa Skrokkölduvirkjun á miðju hálendinu skera í augu, en orkumálastjóri segir skynsamlegt að samþætta þar orkunýtingu og ferðaþjónustu. Umhverfisráðherra ætlar í febrúar að leggja tillögu um rammaáætlun fram á Alþingi ásamt frumvarpi um hálendisþjóðgarð, þar sem tilteknar virkjanir verða leyfðar.

Rammaáætlun er aðferð stjórnvalda til að útkljá hvar á að reisa virkjanir og hvaða svæði á að vernda. Sérstök verkefnisstjórn raðar virkjunarkostum í nýtingarflokk, biðflokk eða verndarflokk og sendir umhverfisráðherra tillögu.

Tillögum fyrir þriðja áfanga áætlunarinnar var skilað 2016, og Sigrún Magnúsdóttir lagði þær fyrir Alþingi óbreyttar í sinni ráðherratíð, en svo komu kosningar. Næsti ráðherra, Björt Ólafsdóttir, lagði tillögurnar aftur fram óbreyttar 2017. En svo var aftur kosið.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson tók við ráðherraembætti síðla árs 2017, og ætlar nú, rúmlega tveimur árum síðar, að leggja tillögurnar fram, aftur óbreyttar, eins og Kjarninn hefur fjallað um.

„Þetta kemur allt of seint,“ segir Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar. Tillögurnar hafi verið tilbúnar mjög lengi. „Aðstæður eru mjög breyttar,“ segir hún og nefnir hve ferðaþjónustan sé orðin mikilvæg atvinnugrein og að nú séu komin drög að lagafrumvarpi um að stofna hálendisþjóðgarð.

„Það sem að sker þarna rosalega mikið í augu, það er Skrokkölduvirkjun sem að er á miðju hálendinu, verður þá í miðjum þjóðgarði,“ segir Auður.

Vorið 2017, þegar Guðmundur Ingi var framkvæmdastjóri Landverndar, talaði hann líka gegn Skrokkölduvirkjun. Í umsögn til þingnefndar sagði hann:

„Skrokkölduvirkjun er nánast í miðju hálendisins, við eina fjölförnustu hálendisleiðina. Þess vegna mun hún hafa áhrif á fleira útivistarfólk og ferðamenn en margar aðrar.“

Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri hefur gagnrýnt hugmyndir um víðtækar friðlýsingar mögulegra virkjunarsvæða.

„Mér sýnist svona umræðan vera komin á nýtt stig,“ segir hann um tillögur umhverfisráðherra.

„Þarna eru menn farnir að tala um einhvers konar skynsamlega samnýtingu á sem sagt orkunýtingarkostum og síðan uppbyggingu ferðamennsku og annað auðvitað sem er hægt að gera í svona hálendisþjóðgarði,“ segir Guðni.

„Ég hef verið mjög gagnrýninn vegna þess að þarna eru auðvitað gríðarleg verðmæti undir, það er að segja þessir virkjunarkostir,“ segir hann. „Það er ekki þar með sagt að þeir verði allir nýttir.“

 

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV