Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Umdeild fráveitustefna óbreytt

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Framsókn og Sjálfstæðisflokkur hafa undirritað málefnasamning um meirihlutasamstarf á Fljótsdalshéraði. Fráveitan var eitt af helstu kosningamálunum á Héraði, meirihlutaviðræður Sjálfstæðismanna og Héraðslista, sem voru í meirihluta, sigldu í strand vegna þeirra.

Héraðslistinn vildi fyrir kosningar halda í núverandi hreinsivirki við Eyvindará en var tilbúinn að samþykkja málamiðlun um nýtt hreinsivirki við Melshorn út í Lagarfljót ef fljótt yrði farið í tveggja þrepa hreinsun. Það hefði kallað á lántökur sem Sjálfstæðismenn sættu sig ekki við og mynduðu í staðinn meirihluta með Framsókn.

„Við ætlum bara að vinna áfram að bættri fráveitu út frá áætlunum hitaveitunnar og í samræmi við lög og hagsmuni umhverfisins,“ segir Anna Alexandersdóttir, oddviti Sjálfstæðismanna er formaður bæjarráðs. 

Reyndar er umdeilt hvað felst í því. Til stendur að veita skólpi í Lagarfljót en nýja hreinsivirkið yrði aðeins eitt þrep til að byrja með. Tveggja þrepa hreinsun þarf á meðan fljótið er skilgreint sem viðkvæmur viðtaki en það gæti breyst. Framsókn lofaði fyrir kosningar að fráveita yrði hreinsuð eins og lög og reglur gera ráð fyrir.

„Það er alveg rétt það hafa komið fram ólíkar skoðanir á því hvað nákvæmlega felst í þeim kröfum sem liggja fyrir í lögum og reglugerðum,“ segir Stefán Bogi Sveinsson, oddviti framsóknar og forseti bæjarstjórnar. „En hitaveitan er sá aðili sem við höfum falið að vinna að fráveitumálum og sem við treystum fullkomlega til þessað vinna þessar áætlanir í samræmi við lög og reglur og það verður bara gert.“

„Ég held að við verðum bara að gefa nýrri stjórn hitaveitunnar tækifæri til þess að vinna að þessum málum. Samningar eru að renna út til 2027 þannig að á þessu kjörtímabili verður væntanlega ekki farið í að reisa hreinsivirki,“ egir Anna.

Þannig að menn hafa enn einhvern tíma til þess að velta málinu fyrir sér? „Menn hafa tíma til þess að gera framkvæmdaáætlun og koma þessu í farveg, já,“ svarar Anna. 

Samkvæmt málefnasamningi nýs meirihluta á Fljótsdalshéraði á meðal annars að kanna grundvöll þess að láta daggjöld fylgja börnum sem ekki nýta dagvistunarpláss og auka greiðslur til dagforeldra. Systkinaafsláttur í leikskólum verður hækkaður og leitað leiða til að öll börn 12-18 mánaða komist í leikskóla. Ljúka á uppbyggingu leikskólans Hádegishöfða í Fellabæ og undirbúa að byggja nýjan leikskóla á Egilsstöðum. 

Stór verkefni eru framundan í skipulagsmálum, meðal annars að breyta deilsikipulagi miðbæjarins á Egilsstöðum og verður horft til þess að ráða skipulagsráðgjafa til starfa tímabundið.  

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV
asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV