Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Umbúðir lambakjöts á ensku fyrir ferðamenn

19.09.2017 - 11:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hluti af því lambakjöti sem selt er í verslunum hér á landi er með enskum texta á umbúðum. Það er gert til að auka sölu til ferðamanna. Málfarsráðunautur RÚV, Anna Sigríður Þráinsdóttir, gerði athugasemdir við þetta í Morgunútvarpinu á Rás 2 í gær.

Svavar Halldórsson, formaður Markaðsráðs kindakjöts, segir að aðeins hluti af því lambakjöti sem selt er í verslunum hér á landi sé með enskum texta. „Við teljum þetta vera ákveðna þjónustu. Verslanir hafa kallað eftir því að til séu umbúðir á ensku,“ segir Svavar. Rætt var við hann í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

„Við höfum öll heyrt sögurnar af erlendu ferðamönnunum sem hafa verið að grilla saltkjöt,“ segir Svavar. Umbúðirnar séu hluti af átaki til að fá ferðamenn til að borða lambakjöt. „Við erum komin vel af stað með verkefni á veitingastöðum, eins og við sjáum af sölutölum núna síðasta sumar, sem voru gríðarlega góðar. Við þökkum þessu verkefni fyrir það.“

Nýjar umbúðir á íslensku síðar

Umbúðirnar á ensku eru nokkuð frábrugðnar þeim íslensku og þykir sumum þær vel heppnaðar.  Hrafnhildur Halldórsdóttir, þáttastjórnandi Morgunútvarpsins spurði Svavar hvers vegna slíkar umbúðir væru ekki löngu komnar í verslanir. „Þetta er uppáhalds spurningin mín en ég get ekki svarað henni,“ sagði Svavar. Hann hafi unnið að því í tvö ár að endurskoða markaðssetninguna og vinna að því að ná til erlendra ferðamanna. Þessi þróun skili sér víðar á markaðinn hér á landi. „Ef þetta nær vinsældum þá liggur það nokkurn veginn ljóst fyrir að innlendu fyrirtækin bjóði þessar vörur.“

Endurskoða aðferðir við kjötvinnslu

Þýðingarnar á upplýsingum um lambakjöt eru líka til á japönsku og þýsku. En kjöt með þeim texta er ekki komið í verslanir. Umbúðir með erlendum texta eru hluti af tíu ára áætlun um að auka virði sauðfjárafurða, að sögn Svavars. Einnig er í gangi samvinna með hundrað veitingastöðum og herferð á samfélagsmiðlum. Þá er verið að endurskoða hvernig skrokkarnir eru nýttir, verið að finna upp nýja skurði og aðferðir.

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir