Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Umboðsmanni barna brugðið vegna brottvísunar

16.11.2016 - 20:10
„Það þarf að hugsa þessi mál betur og fara ofan í þau í þaula,“ segir Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna, sem var brugðið eftir að hafa séð umfjöllun um fjölskyldu sem átti að vísa af landi brott í morgun í lögreglufylgd. Ekki varð af brottvísuninni að sinni, að líkindum vegna uppnáms sem börnin og móðir þeirra komust í.

Rætt var við Margréti og Árna Frey Árnason, lögmann fjölskyldunnar í Kastljósi í kvöld. Margrét sagði samúð sína fyrst og fremst hjá börnunum og að vanda þurfi betur til verka við slíkar aðgerðir. 

Árni segist hafa unnið að því alla vikuna að því að fá frestun á brottvísuninni með því að senda endurupptökubeiðni til kærunefndar útlendingamála. „Því var neitað og málið heldur áfram.“ 

Bæta þurfi málshraða

Fjölskyldan í Reykjanesbæ hefur verið búsett hér á landi í tvö ár og á þeim tíma hafa fæðst tvö börn. Margrét játar því aðspurð að bæta þurfi hraðann á málsmeðferð slíkra mála. Í þessu tilfelli þekki börnin ekki annað en að búa hér.  „Umboðsmaður myndi meta allan vafa börnunum í hag og börnin hafa allt of oft verið illsýnileg í slíkum málum, varðandi fylgdarlaus börn og hælisleitendamálin. Umboðsmaður hefur gagnrýnt, og ekki bara við, heldur umboðsmenn í Evrópu hafa gagnrýnt þessi mál.“

Börnin hafa ekki ríkisborgararétt þótt þau fæddust hér. Árni Freyr segir að deilt sé um það hvort börnin hafi fasta búsetu frá fæðingu hér á landi samkvæmt Þjóðskrá. Þau hafa ekki fasta gilda lögheimilisskráningu í Þjóðskrá út af aðstæðum foreldranna. Þessvegna er þeim vísað úr landi. „Þau eru með kennitölu og heimilisfang og þannig fasta búsetu,“ segir Árni. Erfitt sé að gera sér grein fyrir hver niðurstaðan verður. „En hver fær að njóta vafans af því hvernig þetta verður. Það er ekkert í hendi hvað bíður þeirra á Ítalíu.“ 

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna

Margrét segir Barnasáttamála Sameinuðu þjóðanna gilda um öll börn sem hér eru og því geti íslensk stjórnvöld ekki skorast undan.  Ekki megi senda börn í hættulegar og skaðlegar aðstæður og það þurfi að meta í hverju tilfelli. Hún leggur þó áherslu á að hún þekki ekki gögn málsins og geti aðeins talað á almennum nótum. „Það er alveg hægt að rökstyðja það að þetta er brot á Barnasáttmálanum.“

Réttarstaða fjölskyldunnar er óbreytt. Árni Freyr gerir ráð fyrir að yfirvöld geri aðra tilraun til brottvísunar. 

Hvorki  Útlendingastofnun né barnavernd Reykjanesbæjar gáfu kost á viðtali um málið þegar eftir því var leitað í dag.

Alltaf horft til hagsmuna barnsins

Í yfirlýsingu Útlendingastofnunar segir hins vegar að brottvísunin hafi byggst á úrskurði kærunefndar útlendingamála. Ávallt sé horft til hagsmuna barna í ákvörðunum stofnunarinnar. Lög sem banna brottvísun þeirra sem fæddir eru hér á landi, eigi ekki við um börn hælisleitenda, að sögn Útlendingastofnunar.

Einstaklingar sem sæki um vernd á Íslandi fá ekki skráð lögheimili hjá þjóðskrá nema máli þeirra ljúki með útgáfu dvalarleyfis. Hið sama gildi um börn þeirra sem fæðast á meðan málsmeðferð stendur. 

asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV