Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Umboðsmaður Alþingis biður Sigríði um gögn

23.01.2018 - 18:30
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Víglundsson - RÚV
Umboðsmaður Alþingis hefur óskað eftir gögnum og upplýsingum frá Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra um embættisfærslur hennar við skipun dómara í Landsrétt. Hann upplýsti þetta á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í liðinni viku. Umboðsmaður óskaði meðal annars eftir upplýsingum um ráðgjafa Sigríðar, innan og utan stjórnarráðsins.

Skipun dómara í Landsrétt hefur reynst dómsmálaráðherra þung í skauti. Hæfnisnefnd taldi 15 umsækjendur hæfasta, en ráðherra lagði til breyttan lista við Alþingi, hafði tekið fjóra umsækjendur út og fært aðra fjóra upp listann. Alþingi samþykkti þennan breytta lista, eftir nokkurt þóf. Tveir umsækjendur kærðu niðurstöðuna, og Hæstiréttur dæmdi tveimur þeirra í hag í síðasta mánuði. Ráðherra hefði brotið lög með því að rökstyðja ekki nægilega breytingarnar á listanum.

Stundin birti í gær tölvubréf milli sérfræðinga stjórnarráðsins, þar sem kemur í ljós að þeir höfðu reynt að benda Sigríði á að rannsaka hæfni umsækjenda betur, svo málsmeðferðin fullnægði meginreglum stjórnsýslulaga. Sigríður sagðist í gær hafa verið ósammála þessu áliti sérfræðinganna, þeir hefðu líka verið starfsmenn hæfnisnefndarinnar. 

Óskar upplýsinga um ráðgjafa

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis kannar nú ákvarðanir og verklag Sigríðar við skipunina, og á fimmtudaginn kom Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, á fund nefndarinnar. Tryggvi afhenti nefndinni afrit af bréfi, sem hann hafði þegar sent dómsmálaráðherra. Í bréfinu óskar hann eftir gögnum um málið til að undirbúa sig fyrir fundinn með nefndinni. Hann vitnar til laga um Stjórnarráðið, þar sem ráðherra er gert skylt að leita ráðgjafar hjá starfsmönnum ráðuneytisins þegar hann tekur ákvarðanir um mikilvæg mál. Starfsmönnum ráðuneytisins er jafnframt skylt að gefa ráðherra ráð byggð á faglegu mati og staðreyndum.

Umboðsmaður óskar í bréfi sínu meðal annars eftir öllum gögnum um skipunina, minnisblöðum, bréfum og öðru, og upplýsingum um það hvaða starfsmenn dómsmálaráðuneytisins og annarra ráðuneyta hafi veitt Sigríði ráðgjöf í málinu. Þá spyr umboðsmaður hvort Sigríður hafi leitað ráðgjafar annarra, utan Stjórnarráðsins, og þá hverra. 

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafði sjálf beðið ráðuneytið um gögn vegna málsins, og þau voru lögð fram á fundi nefndarinnar á fimmtudaginn. Það mun vera hluti þeirra sem Stundin birti í gær.

Bíður niðurstöðu nefndarinnar

Hlutverk umboðsmanns Alþingis er að hafa eftirlit með stjórnsýslunni og gæta jafnræðis og vandaðra stjórnsýsluhátta. Hann tekur fram í bréfi sínu til ráðherra að hann óski eftir gögnunum til að taka afstöðu til þess hvort rétt sé að hefja frumkvæðisathugun á málinu, að því marki sem Alþingi hafi málið ekki til athugunar.

Tryggvi Gunnarsson sagði í samtali við fréttastofu í dag að hann hygðist ekki hafa frekari afskipti af málinu fyrr en nefndin hefur ákveðið í hvaða farveg hún setur það.