
Um hvað er kosið á Austurlandi um helgina?
Stjórnsýslan
Stefnt er að því að hvert hinna sameinuðu sveitarfélaga fái sérstaka heimastjórn en slíkar stjórnir munu fara með deiliskipulagsvald. Heimastjórn sveitarfélaga er ný tegund stjórnskipulags sem á að taka í gagnið ef af sameiningunni verður. Markmiðið er að tryggja áhrif íbúa á nærþjónustu og bregðast við þeirri gagnrýni að jaðarbyggðir missi áhrif í sameinuðum sveitarfélögum. Þess ber þó að geta að heimastjórnir munu ekki hafa fjárveitingarvald.
Heimastjórnir verða fjórar og munu þrír fulltrúar sitja í hverri heimastjórn, tveir sem kosnir eru beinni kosningu af íbúum á hverju svæði fyrir sig og einn sem á sæti í bæjarstjórn. Fulltrúarnir þrír eru allir jafn réttháir.
Íbúar fámennari sveitarfélaga hafa einhverjir haft áhyggjur af því að með sameiningu muni áhrif þeirra minnka og að Fljótsdalshérað eigi eftir að gleypa þau minni. Heimastjórnafyrirkomulagið er tillaga til þess að koma til móts við þær áhyggjur.
Ef af sameiningu verður munu ellefu kjörnir fulltrúar taka sæti í nýrri bæjarstjórn. Þá verða þrjú fagráð og fimm fulltrúar í byggðaráði, sjö í fjölskylduráði og sjö í umhverfisráði.

Samgöngumál
Samstarfsnefnd um sameiningu hefur lagt mikla áherslu á samgöngumál, enda eru þau forsenda þess að vel takist til við sameininguna. Með sameiningu verður enn mikilvægara að klára heilsársveg yfir Öxi og Fjarðarheiðargöng. Þá mun sameinað sveitarfélag leggja áherslu á að Egilsstaðaflugvöllur verði skilgreindur sem flughlið inn í landið og fjármagn verði tryggt til uppbyggingar flughlaða og akstursbrautar.
Nafn á nýju sveitarfélagi
Nafn nýs sveitarfélags liggur ekki fyrir en sveitarstjórn mun velja nafnið. Líklega verður haldin íbúakosning þar sem valið verður á milli tillagna frá íbúum. Athygli vakti þegar sameiningarnefndin var stofnuð og valdi vinnuheitið Sveitarfélagið Austurland á verkefnið.
Sterkari eining og meðgjöf frá ríkinu
Íbúar á svæðinu vonast til þess að sameinað sveitarfélag verði sterk eining í hagsmunabaráttu í samgöngu- og byggðarmálum. Fari svo að sameiningin verði samþykkt mun hið nýja sveitarfélag fá 1,1 milljarð í meðgjöf frá hinu opinbera ef hugmyndir sveitarstjórnarráðherra ganga eftir um sameiningar sveitarfélaga.
Opnir íbúafundir og starfshópar
Fjórir opnir íbúafundir voru haldnir í þeim tilgangi að skapa gagnrýna umræðu um sameininguna. Góð mæting var á fundina en þar gefst íbúum tækifæri til að koma spurningum, sjónarmiðum og ábendingum á framfæri. Sex starfshópar voru skipaðir um ýmsa málaflokka og á sjötta tug íbúa og starfsfólks tók þátt í vinnu starfshópa og rúmlega 300 íbúar mættu til samráðsfunda.
Á vefnum svausturland.is er að finna gagnlegar upplýsingar um fyrirhugaða sameiningu. Þar má einnig finna upptökur af íbúafundum, svör við algengum spurningum og fleiri upplýsingar um sameininguna.