Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Um 850 ábendingar bárust um nýtt leiðakerfi Strætó

14.11.2019 - 22:07
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Um 850 ábendingar bárust um nýtt leiðakerfi Strætó, en umsagnafresturinn rann út í gær. Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, segir að nú verði farið yfir ábendingarnar, þær flokkaðar og unnin áfangaskýrsla sem gert sé ráð fyrir að verði tilbúin 13.desember og lögð fyrir stjórn Strætó. „Við höfum sagt fólki að þetta séu fyrstu hugmyndir, samráðsferli og alls ekki lokatillögur.“

Nýja leiðakerfið taki gildi í skrefum. Guðmundur segir að stefnt sé að því að stór hluti þess verði orðinn að veruleika samhliða fyrsta áfanga borgarlínu, árið 2023. 

Nýja leiðakerfið var kynnt á sjö opnum fundum og fólki einnig gefinn kostur á að senda inn ábendingar. Guðmundur segir að íbúar í Árbæ og Norðlingaholti hafi sent inn flestar ábendingar. 

Leiðirnar eru einkenndar með bókstöfum og upphafs og endastöð. Guðmundur segir þó að númer verði áfram á leiðunum. Leiðir A til G séu stofnleiðir með tíu mínútna tíðni á annatíma. Þessar leiðir breytist að stórum hluta í Borgarlínu þegar sérrými verði tilbúið fyrir hana. Hinar leiðirnar séu almennar leiðir sem byggi á því að tengja hverfi við stofnleiðir. „Pælingin snýst meira um beinni leiðir, meiri tíðni og styttri ferðatíma,“ segir Guðmundur. Þetta eigi við jafnvel þótt fólk gæti þurft að taka tvo vagna í stað eins nú. „Strætó er lengur á leiðinni á annatímum en einkabíllinn, heilt yfir, og við erum að reyna að breyta því.“

Stóru skiptistöðvarnar verði við BSÍ, þar sem komi ný samgöngumiðstöð sem taki við af Hlemmi, Vogabyggð sem taki við af Ártúni, Mjódd og Hamraborg.