Um 30 hótelum lokað og restin næstum auð

26.03.2020 - 17:26
Mynd með færslu
Mynd úr safni. Mynd: RÚV
Hátt í 30 hótelum hefur verið lokað eða verður lokað innan skamms vegna COVID-19 faraldursins. Ein hótelkeðja er búin að loka sex af sjö hótelum sínum og önnur níu af tólf hótelum, þar af öllum nema einu í Reykjavík. Stjórnendur hótela sem fréttastofa ræddi við segja að gríðarlega erfitt verði að takast á við næstum algjört tekjuhrun næstu mánuði. Þeir segja aðgerðir stjórnvalda sem þegar hafa verið kynntar hins vegar hjálpa til við að takast á við vandann, í það minnsta fyrst um sinn.

Kristófer Oliversson, formaður FHG - Fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu og framkvæmdastjóri Center Hotels, segir að bjartsýna sviðsmyndin í hótelgeiranum sé sú að hægt sé að hefja starfsemina á ný í júní. Sú svartsýna er að sumarið allt fari forgörðum. Það ráðist þó mest af aðstæðum úti í heimi.

„Það eru allir gestir farnir og engir að koma. Þá eru hótelin að loka hvert á fætur öðru. Það eru fáir kostir í þeirri stöðu og engir góðir. Tekjurnar eru farnar og þá er fátt til ráða annað en að minnka kostnaðinn,“ segir Kristófer. „Ferðaskrifstofur og stærri aðilar vilja afbóka lengra fram í tímann. Það er lang mest af afbókunum núna í mars, apríl, maí og fram í júní. Í þessari stöðu núna eru menn að afbóka þrjá til fjóra mánuði fram í tímann.“

Ekkert fyrirtæki í stakk búið að takast á við ástandið

„Það er í sjálfu sér ekkert félag í ferðaþjónustu hérlendis í stakk búið til að takast á við þetta ógnvænlega ástand,“ segir Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandair hótela. „Okkar félag líkt og önnur hefur átt á brattann að sækja undanfarið sökum mikillar kostnaðaraukningar í kjölfar nýrra kjarasamninga, á sama tíma og hægst hefur á aukinni eftirspurn. Við sjáum okkur því ekkert annað fært en að loka sem flestum einingum og skera niður launakostnað. Einu hótelin í okkar rekstri sem enn eru opin eru Hilton Reykjavík Nordica og Icelandair Hótel Hérað og Akureyri, en við metum aðstæður áfram dag frá degi hvað þau varðar.“ Hún segir þó einhug í starfsfólki að bjarga rekstri félagsins svo það verði áfram starfhæft og geti sótt markvisst á markaði um leið og færi gefst.

Mynd með færslu
 Mynd:

Dyrunum lokað og læst

Center Hótels hugðust loka fimm af sjö hótelum sínum og starfrækja tvö áfram. „Það varð augljóst mjög fljótt að það er ekkert vit í því að halda meira en einu hóteli opnu. Það er meira til málamynda,“ segir Kristófer Oliversson framkvæmdastjóri. Nú verður því starfsfólk af sjö hótelum í 25 prósenta starfi og það sér um að starfrækja eina hótelið sem er áfram í rekstri.

Kristófer fagnar því útspili stjórnvalda að atvinnuleysistryggingasjóður greiði allt að 75 prósent af launum fólks gegn því að fyrirtækin haldi ráðningarsambandinu við. „Þessar aðgerðir skipta sköpum. Annars hefðu menn ekki átt annarra kosta von en að segja upp starfsfólki og vona það besta,“ Með þessum hætti heldur starfsfólk vinnunni og launum og fyrirtækin halda starfsfólkinu áfram. Kristófer segir að hinn möguleikinn hefði verið sá að hótelin þyrftu að segja upp starfsfólkinu sínu. Þá hefðu þau borgað því full laun á uppsagnarfresti í allt þremur manuðum, á sama tíma og nær engar tekjur koma inn. Þar með hefði fé hótelanna brunnið upp enn hraðar en annars væri.

Sinna þeim fáu gestum sem koma

„Hótelin eru opin ennþá og við reynum að sinna þessum örfáu sem koma inn,“ segir Geir Gígja, sölu- og markaðsstjóri hjá Hótel Cabin, Hótel Kletti og Hótel Örk. „Við erum að átta okkur almennilega á stöðunni. Það er mjög mikið af afbókunum. Það búið að afbóka allan mars og apríl, það er komið inn í maí og júní.“ Geir segir að enn sem komið er sé þó mun minna um afbókanir í júní en á vormánuðum. „Sumir af þeim sem afbókuðu í mars og apríl eru líka að endurbóka í júní.“

„Við höfum ekki skoðað að afbóka neina gesti sem vilja koma. Það er ekki inni í myndinni og við fögnum öllum þeim sem vilja koma,“ segir Geir aðspurður hvort komið hafi til greina að loka öllum hótelunum.

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV

Fagna aðgerðum stjórnvalda

Aðgerðir sem stjórnvöld hafa boðað sýna að þau taka þessu af fullri alvöru, segir Kristófer. „Því hefur verið marglýst yfir að menn muni laga sig að þeim aðstæðum sem kunna að koma upp. Mér finnst þetta vel af stað farið. Og yfirlýsingar ítrekaðar um, eins og Bjarni [Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra] sagði, að það sé betra að gera meira en minna. Við þurfum að hafa fyrirtæki sem hægt er að ræsa upp þegar rofar upp og það gerum við ekki nema okkur takist að halda okkar góða fólki.

Geir Gígja fagnar aðgerðum stjórnvalda. „Okkur sýnist þær vera mjög góðar jafn langt og þær ná og munu hjálpa okkur mjög mikið. Nú er bara að þreyja þorrann.“

Bara fyrsta atlaga að vandanum

„Núverandi aðgerðir gera okkur kleift að undirbúa starfsemi næstu vikna miðað við skert hlutfall starfsmanna, og koma sömuleiðis í veg fyrir fjöldauppsagnir með tilheyrandi kostnaði félags og auknu atvinnuleysi, sem er þakkarvert,“ segir Magnea Þórey hjá Icelandair Hótelum. „Þetta er þó einungis fyrsta atlaga að vandanum og ljóst að grípa þarf til frekari aðgerða í framhaldinu, eins og okkur skilst að sé í kortunum. Tekjutap fyrstu tveggja ársfjórðunga, þar af háannar sumars, skerðir klárlega möguleika margra í hótelrekstri á að halda áfram að óbreyttu.“

Mynd með færslu
 Mynd: Inga Ragnar Ingason - Ingi Ragnar Ingason

Bankarnir ráða örlögunum

Kristófer segir að það sé í raun og veru í höndum bankanna hvort fyrirtæki í hótelrekstri lifa af eða fara í þrot. „Þeim er gert að skilgreina lífvænleg fyrirtæki. Það er í raun og veru í þeirra höndum, eins og alltaf þegar illa gengur. Fyrirtækin ganga misjafnlega en bönkunum er uppálagt að skilgreina lífvænleg fyrirtæki. Það er enginn annar aðili sem getur gert það betur. Þetta á bara eftir að koma í ljós í vinnunni framundan.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi