Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Um 1400 frambjóðendur og 28 þúsund meðmælendur

22.09.2017 - 16:30
Mynd: RÚV / RÚV
Flokkarnir keppnast nú við að raða frambjóðendum á lista og útlit er fyrir að minnsta kosti 11 flokkar bjóði fram í öllum kjördæmum. Tíminn er skammur og þess vegna er ljóst að stillt verður upp á lista frekar en að efna til prófkjöra. Það er stutt frá síðustu kosningum og nýir þingmenn eru varla búnir að koma sér inn í starfið. Það lítur heldur ekki út fyrir að margir ætli að hætta þingstörfum. Þess vegna er freistandi og einfaldast að bjóða fram nánast sömu lista og í haust.

Í Sjálfstæðisflokknum þar sem prófkjör er nánast regla eu nú líkur  á því að uppstilling verði fyrir valinu í landsbyggðarkjördæmunum. Ákvörðun um hvaða aðferð verið beitt í Reykjavíkurkjördæmunum hefur ekki verið ákveðin. Það verður væntanlega ákveðið á fundi fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna  í Reykjavík eftir helgi.

Í Vinstri grænum eru það kjördæmaráðin sem ákveða aðferð um val á listum og valið snýst um uppstillingu eða forval og reyndar líka að listinn verði óbreyttur frá því í síðustu kosningum. Í suðvestur kjördæmi verður boðið upp á að velja á milli þessara þriggja kosta. Landsfundur flokksins verður 6-8 október og líklegt að búið verði að raða á lista fyrir fundinn. Þó er búist við að Vinstri grænir bíði með það fram yfir fundinn vegna þess að tveir úr kjördæminu gefa kost á sér í embætti varaformanns flokksins.

Píratar ætla að efna til fimm prófkjöra. Sameiginlegt prófkjör verður í Reykjavíkurkjördæmunum. Prófkjörin hefjast á slaginu þrjú á laugardaginn og lýkur 30. september. Frambjóðendur verða að vera skráðir í flokkinn og kosningin er rafræn. Birgitta Jónsdóttir sem hefur staðið í stafni flokksins hættir.

Í Framsóknarflokknum eru það aukakjördæmaþing sem ákveða hvernig valið verður á lista. Í Reykjavík liggur fyrir tillaga að uppstilling verði fyrir valinu. Stefnt er að því að listar verið bornir fram til samþykktar 5. október. Aukakjördæmaþing verða í suður, norðvestur og norðaustur kjördæmum um helgina. Í bæði norðaustur og norðvestur kjördæmum virðist ekki vera einhugur oddvita listanna og því gætu orðið einhver átök.

Framkvæmdarstjórn Samfylkingarinnar beinir þeim tilmælum til kjördæmaráða flokksins og fulltrúaráðsins í Reykjavík að stillt verði upp á listana og kosið um þá á kjördæmaráðsfundum. Hvað leiðir verða farnar ætti að skýrast um helgina  því boðuð eru fundahöld víða um land.

Uppstilling verður hjá Bjartri framtíð. 5 manna nefnd er að störfum sem mun leggja fram tillögur um röðun á lista. Listarnir verða síðan bornir fram fyrir 80 manna stjórn flokksins.

Hjá Viðreisn eru uppstillingarnefndir í öllum kjördæmum og ákveðnar reglur eru um framgang uppstillingar en líklegt að vikið verði frá þeim vegna tímaskorts. Atkvæði eru greidd um listana í landshlutaráðum  en áður hefur stjórn flokksins lagt blessun sína yfir þá.

Flokkur fólksins bauð fram í síðustu kosningum í öllum kjördæmum og fékk 3,5%. Þar á bæ er uppstillingarnefnd að störfum. Listarnir verða bornir undir atkvæði í stjórn flokksins.

Dögun sem líka bauð fram í öllum kjördæmum síðast. Þar er stefnt á lista í öllum kjördæmum en ekki víst að það takist. Einhverjar þreifingar eru um samstarf við aðra flokka.

Alþýðufylkingin sem bauð fram í öllum kjördæmum nema norðvestur kjördæmi. Stefnir á lista í öllum kjördæmum.

Íslenska alþýðufylkingin bauð fram í þremur kjördæmum, í Reykjavík og í suðvestur kjördæmi  í fyrra.  Flokkurinn vinnur nú að því að ná fram listum um allt land.

Húmanistaflokkurinn leggur ára í bát í þessum kosningum vegna tímaskorts. Hann bauð bara fram í Reykjavík suður og fékk aðeins 33 atkvæði.

Frelsisflokkurinn sem stofnaður var á þessu ári ætlar ekki að fara fram í alþingiskosningunum en hefur hug á því að taka þátt í borgarstjórnarkosningunum og jafnvel víðar í vor.

Sósíalistaflokkurinn hefur ekki ákveðið framboð. Fundaði um málið á þriðjudag og framhaldsfundur verður á morgun.

 Þarf allt að 28 þúsund meðmælendur

 En það er ekki bara að koma upp framboðslista því það þarf 30 og mest fjörutíu meðmælendur með hverju nafni á listanum miða við þingmannafjölda í hverju kjördæmi. Þar sem þingmenn eru tíu talsins þarf 300 meðmælendur. Flokkur sem býður fram í öllum kjördæmum þar að fá tæplega 1900 meðmælendur og mest yfir 2500. Ef framboðin verða 11 og boðið fram í öllum kjördæmum þurfa þessi flokkar að safna tæplega 21 þúsund meðmælendum og mest tæplega 28 þúsund. Og vert er að taka fram að meðmælandi má aðeins mæla með einum lista. Það getur líka verið handleggur að fá fólk á lista. Fjöldi á lista verður að vera tvöfaldur þingmannafjöldi í viðkomandi kjördæmi. Til þess að fylla alla lista fyrir 11 flokka í öllum kjördæmum þarf tæplega 1400 einstaklinga eða nákvæmlega 1386.

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV