Úlfar hélt ekki fram hjá sinni gæs

Mynd með færslu
 Mynd:

Úlfar hélt ekki fram hjá sinni gæs

19.08.2014 - 20:05
Heiðagæsasteggurinn Úlfar gerði óvænta viðdvöl á Suðurlandi þegar hann kom hingað til lands í vor. Fræðimenn grunaði að hann hefði verið að stíga í vænginn við nýja gæs en þegar ljósmynd náðist af honum við Rangá sást hann spóka sig með sinni ektakvinnu.

Þetta er meðal þeirra upplýsinga sem lesa má úr sendi sem festur var um háls Úlfars. Heiðagæsasteggirnir Úlfar og Hörður fengu hvor sinn sendinn þar sem þeir voru á varpstöðvum sínum á Fljótsdalsheiði í júlí í fyrra. „Þetta er GSM-móttakari sem staðsetur fuglinn og svo hann er eiginlega með símtæki sem sendir sms á miðnætti um hvar fuglinn hefur verið staddur,“ segir Arnór Þórir Sigfússon fuglafræðingur sem vinnur að verkefninu. Það er á vegum breskra samtaka sem berjast fyrir verndun votlendis og fugla og Náttúrustofu Austurlands.  

Ferðasagan hefst um miðjan september þegar Hörður og Úlfar flúðu hret til Hafnar í Hornafirði. Þaðan var svo haldið á vetrarstöðvarnar en ferð Harðar var nokkuð brösótt. „Hann sem sagt lendir þarna í stífum mótvindi þegar hann er að fljúga vestur af Færeyjum og þið sjáið að hann ber aðeins af leið út af mótvindinum, hann lendir í rigningu líka og þá lenda þeir bara á sjónum og þar, hann er væntanlega í hóp, og halda kyrru fyrir í 33 klukkustundir og láta sig bara reka á hafinu,“ segir Arnór.

Tók óvænta stefnu á Suðurland

Þegar styttir loks upp tekur Hörður sig upp og flýgur til eyjarinnar Lewis við vesturströnd Skotlands. Eftir að hafa jafnað sig fer hann til Norfolk á Englandi til að verja þar vetrinum. Um vorið fljúga þeir félagar til Hafnar í Hornafirði og tók ferð Úlfars ekki nema tólf tíma.„Svo kom hann okkur gjörsamlega á óvart. Hann setur undir sig hausinn og flýgur á Suðurlandið, stoppar aðeins við Hvolsvöll og fer svo upp með Rangá,“ segir Arnór. Þar varði Úlfar vorinu. „Mín fyrsta tilgáta þegar við sáum þetta var að hann hefði hugsanlega skipt um kerlingu. Þannig að ég fór og reyndi að finna þá, með myndavélina og jú viti menn, ég fann hann þarna við Austvaðsholt. Og hann var með kellu sinni af því að hún var líka hálsmerkt,“ segir Arnór.

Fyrsta maí halda Hörður og Úlfar af stað á varpstöðvarnar á Fljótsdalsheiði. Þegar Úlfar lendir er allt á kaf í snjó svo hann fer til Hafnar í Hornafirði. „En Hörður virðist gera sér grein fyrir þegar hann er bara lagður af stað að það er allt á kafi í snjó heima hjá honum þannig að hann flýgur sem leið liggur norður í Bárðardal,“ segir Arnór. Hann skoðaði snjómynd frá þessum degi og þá kom í ljós að Bárðardalur var einn af fáum auðum blettum á hálendinu. 

Gæsir gáfaðri en talið var

Ellefta maí lýkur ferðalaginu þegar þeir félagar koma á varpstöðvarnar að nýju. Þessar upplýsingar segja mikið um ferðir gæsanna og benda líka til þess að þær séu gáfaðri en talið var. „Þær virðast alveg nákvæmlega vita hvað þær eru að gera og þekkja hvað er fram undan,“ segir Arnór.