Úkraínumenn fá flugritana afhenta

10.01.2020 - 17:48
Erlent · flugslys · Íran · Úkraína · Evrópa
Mynd með færslu
 Mynd: YouTube
Úkraínskir sérfræðingar fengu í dag afhenta flugrita úkraínsku farþegaþotunnar sem hrapaði í Íran fyrr í vikunni. Þeir fá einnig aðgang að braki úr vélinni. Vadym Prystaiko, utanríkisráðherra Úkraínu, greindi fréttamönnum frá þessu í Kænugarði síðdegis.

Prystaiko sagði að úkraínskir og íranskir sérfræðingar ætluðu að rannsaka innihald ferð- og flugrita þotunnar í sameiningu. Ráðherrann lagði til að stofnuð yrði alþjóðleg nefnd til að rannsaka ástæður þess að þotan fórst með öllum sem um borð voru, 176 manns.

Úkraínski ráðherrann neitaði að tjá sig um upplýsingar sem fram hafa komið um að Íranar hafi grandað þotunni með flugskeyti. Stjórnvöld í Bandaríkjunum, Bretlandi, Kanada og nú síðast Hollandi segjast hafa gögn sem sanni það. Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, kvaðst í dag ekki sjá ástæðu til að draga í efa upplýsingar um að þotan hafi verið skotin niður með íranskri loftvarnaflaug.

Nokkur vestræn flugfélög hafa tilkynnt að flugvélar þeirra fari ekki um íranska lofthelgi meðan verið er að rannsaka ástæður þess að úkraínska þotan fórst. Svíar tilkynntu í dag að beint flug milli Írans og Svíþjóðar hefði verið bannað. Flugfélagið Iran Air hefur sinnt áætlunarflugi milli landanna. Forstjóri sænsku samgöngustofunnar segir að þetta eigi vafalaust eftir að valda einhverjum vandræðum, en öryggi farþeganna gangi fyrir.