Úkraínsk þota með 176 innanborðs hrapaði við Teheran

08.01.2020 - 04:34
Erlent · Asía · Íran · Úkraína
epa08111615 Members of the International Red Crescent collect bodies of victims around the wreckage after an Ukraine International Airlines Boeing 737-800 carrying 176 people crashed near Imam Khomeini Airport in Tehran, killing everyone on board; in Shahriar, Iran, 08 January 2020.  EPA-EFE/ABEDIN TAHERKENAREH
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Úkraínsk farþegaþota með 167 farþega og 9 manna áhöfn innanborðs hrapaði stuttu eftir flugtak í Teheran, höfuðborg Írans, skömmu fyrir fjögur í nótt að íslenskum tíma. Íranski Rauði hálfmáninn segir engar líkur á að nokkur hafi komist lífs af.

Samkvæmt írönskum fjölmiðlum hrapaði vélin, sem er af gerðinni Boeing 737-800, til jarðar í bænum Parand, skammt suðvestur af höfuðborginni. Vélin var á leið til Kænugarðs. 

Engar líkur á að nokkur hafi lifað af

Staðfestar upplýsingar um manntjón hafa ekki borist en AFP-fréttastofan hefur eftir Rauða hálfmánanum í Íran að enginn möguleiki sé á að nokkur hafi lifað af. Á myndskeiði sem íranska ríkisfréttastofan birti á Twitter má sjá ljósglampa á lofti, sem bendir til þess að eldur sé um borð í vélinni. Litlu síðar virðist verða sprenging um borð, rétt áður en vélin hrapar til jarðar þar sem önnur og enn meiri sprenging verður. 

Fréttin var uppfærð kl. 07.00

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV