Uggur á Akranesi vegna áforma HB Granda

27.03.2017 - 13:59
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhann Bjarni Kolbeinsson - RÚV
Forsvarsmenn HB Granda hafa ákveðið að hætta botnfiskvinnslu á Akranesi og sameina hana vinnslunni í Reykjavík. 93 starfa við botnfiskvinnslu á Akranesi og 270 í allt hjá HB Granda á Akranesi. Á blaðamannafundi í dag sagði forstjórinn óljóst hve mörgum verði sagt upp á Akranesi eða hvort einhver störf verði færð til Reykjavíkur. Bæjarstjórinn og formaður Verkalýðsfélags Akraness eru uggandi vegna þróunar atvinnumála á Akranesi.

„Það sem veldur þessu helst er styrkur íslensku krónunnar og hækkun innlends kostnaðar auk þess sem fiskverð hefur nánast verið óbreytt í tvö ár fyrir þær afurðir sem eru unnar hér," sagði Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda.

Mynd: RÚV / RÚV

Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi, segir að nær helmingurinn af kvótanum sem HB Grandi fékk við stofnun sé frá Akranesi. Hann segir Skagamenn tilbúna að vinna að því með HB Granda að vinnslan verði á Akranesi. „Við getum komið höfninni í nákvæmlega það ástand sem hún þarf að vera. Við getum tryggt að starfsemin verði hönnuð í kringum þetta fyrirtæki. Það hefur verið kynnt fyrir þeim á undanförnum mánuðum en á allra allra síðustu dögum hef ég farið yfir það með HB Granda hvernig þeir geta hagað sinni framtíðarsýn hér á Akranesi þar sem hún er með nægt landrými til að þeir geti hagað starfseminni hér á Akranesi.

Mynd: Skjáskot / RÚV

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, segir að þetta séu sorgleg tíðindi. „Það er sorglegt til þess að vita að hér erum við stödd í húsi sem var í raun og veru byggt 1906. Þetta er fyrirtæki sem hefur staðið af sér tvær heimsstyrjaldir. Núna stöndum við frammi fyrir því að starfsemi í þessu húsi er að ljúka. Vegna þess er maður dapur og hryggur fyrir hönd fólksins og samfélagsins alls hér.

Mynd: Skjáskot / RÚV
 
Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi