Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Tyrkir og Rússar við sameiginlegt eftirlit

02.11.2019 - 05:42
Turkish and Russian patrol is seen near the town of Darbasiyah, Syria, Friday, Nov. 1, 2019. Turkey and Russia launched joint patrols Friday in northeastern Syria, under a deal that halted a Turkish offensive against Syrian Kurdish fighters who were forced to withdraw from the border area following Ankara's incursion.(AP Photo/Baderkhan Ahmad)
 Mynd: AP
Rússar og Tyrkir hófu sameiginlegt eftirlit við landamæri Tyrklands og Sýrlands í gær, bæði úr lofti og á jörðu niðri. Er þetta í samræmi við samkomulag ríkjanna um brotthvarf Kúrda frá landamærunum og myndun svokallaðs öryggissvæðis meðfram þeim, Sýrlandsmegin.

Öryggissvæðið er um 120 kílómetra langt og 30 kílómetra breitt. Rússar tilkynntu yfirvöldum í Ankara í vikunni að vopnaðar sveitir Kúrda hefðu þegar yfirgefið svæðið og í gær, föstudag, óku tyrkneskir hermenn bryndrekum sínum yfir landamærin og slógust í hóp rússneskra eftirlitssveita sem þar biðu.

Tyrknesk varnarmálayfirvöld greindu frá því á Twitter að hermenn beggja ríkja ynnu saman að eftirlitinu, annars vegar á jörðu niðri og hins vegar úr lofti, með drónum. Þá birtu þau myndir af hermönnum við eftirlitsstörf nærri sýrlenska landamærabænum Darbasiya. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV