Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Týndu ár Jakobínu Sigurðardóttur

Mynd: Úr einkasafni / Úr einkasafni

Týndu ár Jakobínu Sigurðardóttur

16.01.2020 - 14:25

Höfundar

Jakobína Sigurðardóttir rithöfundur var þögul um sína hagi meðan hún lifði. Sigríður Kristín Þorgrímsdóttir, dóttir hennar, vissi sjálf lítið um ýmislegt úr hennar ævi, sem varð til þess að hún ritaði bók um ævi móður sinnar.

„Ég ætlaði upphaflega að einblína á þröngt tímabil á hennar ævi, sem ég kalla týndu árin hennar, af því að hún var svo þagmælsk og hafði lítið sagt manni,“ segir Sigríður Kristín Þorgrímsdóttir sagnfræðingur, sem unnið hefur til Fjöruverðlaunanna fyrir bók sína Jakobína: Saga skálds og konu, í flokki fræðirita og rita almenns efnis.

Jakobína Sigurðardóttir var á sínum tíma meðal þekktustu rithöfunda landsins. Af níu skáldsögum sem hún gaf út um ævina voru þrjár þeirra (Dægurvísa 1965, Snaran 1968 og Lifandi vatnið 1974) valdar sem framlag Íslands til Bókmenntaverðlauna Norðurlanda. Jakobína var beittur rithöfundur, hún var sósíalisti og vöktu bækur hennar misjöfn viðbrögð eftir viðhorfum fólks til félagsmála og pólitíkur.

Sigríður Kristín tekur það fram í bókinni að Jakobínu væri líklega ekki mikið um það gefið að það væri skrifuð bók um hana. „Mamma var fædd 1918 og það var kannski bæði það af hvaða kynslóð hún var að fólk var ekki að bera sín mál á torg.“

Samtal dóttur og móður

„Ég vissi ótrúlega lítið um ýmislegt úr hennar ævi og það var upphaflega kveikjan,“ segir Sigríður Kristín sem hóf að skrifa bókina í tilefni af því að Jakobína hefði orðið 100 ára árið 2018. Þegar hún fór að glíma við heimildirnar, hin og þessi bréf og það sem hún vildi segja frá úr hennar einkalífi rann upp fyrir henni að Jakobína hefði líklegast ekki orðið sátt við að dóttir hennar væri að lofta úr glatkistunni.

„Þá fékk ég þessa hugmynd: að eiga samtöl við hana. Það er það eina sem er skáldað í þessari bók, það eru samtölin mín við mömmu. Þau eru þó ekki skálduð meira en það að ég reyni að ímynda mér hvernig þau hefðu getað verið.“

Jakobína Sigurðardóttir skáld, á heimili og ásamt börnum.
 Mynd: Úr einkasafni
Jakobína með dætrum sínum þremur og ungum frænda.

Bókin er sögð frá sjónarhorni Sigríðar Kristínar. Hún er sagnfræðingur að mennt og notar þær vinnuaðferðir sem henni hafa verið kenndar en um leið var hún ekki viss um að hægt væri kalla verkið fræðirit. „Því þetta stendur mér svo nærri. Ég er að skrifa um móður mína. Þannig að ég leyfði mér að vera persónuleg og blanda mér inn í þetta.“ 

Hún er sennilega bara fræg – hún mamma

Sigríður Kristín segir að Jakobína hafi verið prinsippmanneskja – sem stjórnaði heimilinu með þögninni.  Sigríður segir að það hafi á stundum reynt á heimilislífið. „Það er erfitt að umgangast fólk sem stjórnar manni með þögninni.“ En Jakobína hafði líka húmor og þær mæðgur gátu hlegið dátt saman. „Hún var búin að skipuleggja jarðarförina sína og við mæðgur deildum alls konar sérvisku. Þannig að hún var bæði þung og létt í lund eiginlega.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/Forlagið
Sigríður Kristín ræddi við Egil Helgason um bókina Jakobína: Saga skálds og konu.

Bækur Jakobínu áttu það til að fara öfugt í góðborgara þess tíma – og fékk Sigríður Kristín að finna fyrir því á eigin skinni. „Maður varð fyrir því í skóla þegar Dægurvísa kom út 1965 að þá fékk maður tal um það að þetta væri klámbók. Og þegar Snaran kemur út 1968, það var alveg voðalegt. Það var sagt við mig að það væri svo mikið klám og ógeðslegt orðbragð í bókinni hennar. Svo var hún svo mikill kommúnisti þannig að maður fékk að finna fyrir því.“

Sigríður Kristín játar það að hún hafi um tíma óskað þess heitt og innilega að Jakobína hagaði sér almennilega og væri bara heima að baka og sauma. „Gera það sem konur og mömmur áttu að gera. Svo rennur upp fyrir mér, 1968 eða 1970, þegar ég fer suður með henni. Við erum staddar á heimili Karls Guðmundssonar leikara. Það er barið að dyrum og ég heyri sagt „ég ætla að fá að sjá hana!“ Ég hef verið 12 eða 13 ára og hugsaði með mér að það væri til líf utan Mývatnssveitar. Hún er sennilega bara fræg hún mamma.“

Rætt var við Sigríði Kristínu um bókina Jakobína: Saga skálds og konu í Kiljunni 4. desember 2019.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Sigríður, Bergþóra og Bergrún Íris fá Fjöruverðlaun

Bókmenntir

Saga um skáld og þolgæði kvenna andspænis valdi

Bókmenntir

„Þetta er stórmerkileg bók“

Bókmenntir

Snaran - Jakobína Sigurðardóttir