Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Tvöfalt virði loðnu: Mikilvæg fæða þorsksins

Mynd með færslu
 Mynd:
Loðnuvertíðin hefur brugðist og ekki í fyrsta sinn. Þorsteinn Sigurðsson, sviðsstjóri hjá Hafró, segir að loðnunnar hafi sennilega aldrei verið leitað jafn gaumgæfilega og nú. Gegnd stofnsins hefur að hans sögn breyst, hún heldur sig norðar, í kaldari sjó. Loðna er annar mikilvægasti nytjastofn okkar og efnahagsleg áhrif loðnubrestsins því veruleg en það er ekki nóg með það. Loðnan er líka ein mikilvægasta fæða aðalnytjastofns Íslendinga, þorsksins, sem og grálúðu, ufsa og fleiri tegunda. 

Skellur fyrir sveitarfélög

Í síðustu viku gaf Hafrannsóknastofnun það út að allri leit að loðnu fyrir þessa vertíð yrði hætt og enginn loðnukvóti gefinn út. Loðnubresturinn er skellur fyrir sveitarfélög, fyrirtæki og fólk sem á mikið undir þessari uppsjávartegund og útlit fyrir að ráðast þurfi í hagræðingaraðgerðir í Langanesbyggð, Fjarðabyggð og líklega víðar. 

Hafrannsóknastofnun og útvegurinn hafa í ár leitað saman að loðnu við landið. „Við erum búin að fá 70 daga frá útgerðum loðnuskipanna til að sigla og mæla, við bjuggum í raun til rannsóknarskip úr þeim með því að stilla tækin þeirra með sama hætti og okkar. Það hefur verið mikið samstarf en leitin hefur því miður ekki skilað þeim árangri að hætt sé að mæla með aflaheimildum,“ segir Þorsteinn.  

Mynd með færslu
 Mynd:
Þorsteinn Sigurðsson, sviðsstjóri hjá Hafró.

Hafrannsóknastofnun leitaði ungloðnu við Grænland í haust, þá strax bentu mælingar til þess að stofninn væri ekki nógu stór til að hægt yrði að mæla með veiðum á vertíðinni í byrjun árs 2019. Hafrannsóknastofnun og nokkur fiskveiðiskip fóru í einn loðnuleiðangur í desember og fimm leiðangra í janúar og febrúar. Niðurstöðurnar bentu allar til þess að stofninn væri ekki nógu stór til að hægt yrði að mæla með veiðum í ár. Í síðustu viku var leit hætt og tilkynnt að enginn kvóti yrði að óbreyttu gefinn út.

Veiðireglan sem stuðst er við til ákvörðunar á umfangi veiðanna kveður á um að skilin séu eftir 400 þúsund tonn af kynþroska loðnu á ári hverju. Mat Hafrannsóknastofnunar eftir sex rannsóknarleiðangra í desember, janúar og febrúar var að stofn kynþroska loðnu í sjónum við Ísland teldi einungis 214 til 240 þúsund tonn. 

Ekki hruninn

Loðnustofninn er ekki hruninn. Þorsteinn segir mikilvægt að halda því til haga. „Okkar hltuverk er að tryggja að hrygning eigi sér stað, það er enn þá þannig að hrygningarstofninn er til staðar þannig að það er vonandi ekki hætta á allsherjarhruni en hann er það lítill að það er ekkert aflögu fyrir okkur mennina að taka.“ 

Héldu lengi í vonina vegna þess sem gerðist árið 2017

Mynd með færslu
Kap kemur til löndunar í Vestmannaeyjum í gærkvöld Mynd: Óskar Pétur Friðriksson
Haldið til Loðnuveiða frá Vestmannaeyjum árið 2017.

Það var bundin von við að fyrstu mælingar gæfu ranga mynd, að loðnan skilaði sér, eins og hefur áður gerst. „Við fórum svolítið brött inn í þessa vertíð þrátt fyrir að allar vísbendingar væru slæmar því fyrir tveimur árum lentum við í þessu saman.“ Hann rifjar upp stöðuna í byrjun árs 2017. Hafrannsóknastofnun hætti þá loðnuleit í febrúar því mælingar sýndu rýran stofn. Þá ákváðu sjávarútvegsfyrirtækin að láta stofnunina hafa fjármuni til að leita betur og um miðjan febrúar fannst loðna norðan við land, vertíðin gat hafist og hún varð ágæt eftir allt saman. 

Víðtækasta leit sem sögur fara af

Vísindamenn töluðu lengi um að ekki væri öll nótt úti, loðnan leyndist kannski í einhverjum mæli undir hafísbreiðu fyrir norðan land. Þar hafi ekki tekist að mæla vel. Tal togarasjómanna um loðnu við Húnaflóa vakti líka vonir en allt kom fyrir ekki, ekkert breyttust mælingarnar. Síðasta hálmstráið, að loðnan gengi inn á miðin úr vestri brást svo líka. En eru vísindamenn stofnunarinnar örugglega búnir að leita af sér allan grun? „Það má segja að við höfum gert það sem við gátum. Það er aldrei hægt að segja með hundrað prósent vissu að við höfum fundið allt sem er til staðar en staðreyndin er sú að við erum búin að vera með yfir hundrað og tíu daga á sjó við leit og mælingar og aldrei í sögu loðnumælinga eða loðnuveiða hefur viðlíka vöktun átt sér stað. Mér finnst þess vegna ákaflega ólíklegt að eitthvað sem hefði veruleg áhrif á þessa niðurstöðu hefði farið fram hjá okkur.“

Byrjuð að hrygna

Þá segir Þorsteinn ekkert benda til vestangöngu, loðnan sem fylgst sé með á Vestfjarðamiðum sé ýmist að hrygna eða búin að hrygna. Vestangönguloðna skeri sig úr, sé óþroskaðri og hægt að greina hana frá hinni. „Það eru engar vísbendingar í þessu sem við höfum verið að sjá síðustu daga um að það sé að gerast núna, því miður.“  

Síðast þegar vertíð brást gaf ráðherra út kvóta

Loðna hefur verið veidd samfleytt frá árinu 1963 en ekki alltaf með vilyrði frá Hafrannsóknastofnun. Staðan sem nú er komin upp er því ekki alveg fordæmalaus.  Árið 2009 var stofninn það rýr að stofnunin gat ekki mælt með veiðum, ráðherra brást við með því að gefa út fimmtán þúsund tonna rannsóknarkvóta. Árið 1981 var líka brestur, þá hafði loðnustofninn aðeins verið rannsakaður í þrjú ár og því lítið vitað um hann, stjórnvöld tóku þá líka ráðin í eigin hendur að sögn Þorsteins, þrátt fyrir ráðgjöf um að veiði yrði sleppt það ár. Þá hafi hugsunin verið önnur en nú og varúðarsjónarmið síður virt.

Færri fiskar, styttri vertíð

Það er af sem áður var, það hafa orðið miklar breytingar á meðalloðnuafla, síðastliðinn fimm ár, að undanskildu þessu ári, hafa veiðst um 300 þúsund tonn, um þriðjungur af því sem veiddist að meðaltali frá árinu 1980 til 2000.

Veiðistofninn er rýrari og vertíðin hefur þess vegna líka breyst, áður var oft verið að veiða loðnu á sumrin, og svo alveg frá nóvember og fram í miðjan mars, þá er hún búin að hrygna og litil verðmæti í henni. Síðustu ár hefur loðnan nær eingöngu verið veidd frá janúar og fram í mars. „Þegar kvótinn er ekki meiri en þetta hafa þeir verið að geyma þetta í hrognatöku sem er dýrasta afurðin og svo fryst loðna á Japan.“ 

Erfitt að tengja þetta ekki loftslagsbreytingum

Mynd með færslu
 Mynd: Blue Planet II - BBC
Það skortir rannsóknir á flóknu samspili tegunda í vistkerfi hafsins við Ísland.

Loðnan hefur í auknum mæli fært sig af Íslandsmiðum í kaldari sjó á Grænlandsmiðum  en Þorsteinn segir að loðnan þurfi enn að koma hingað til hrygningar, hún hrygni á litlu dýpi, þar sem er sandbotn og þær aðstæður séu ekki til við Grænland. Þegar loðnurannsóknir hófust árið 1979, hrygndi loðnan fyrir sunnan og suðvestan land, nú hrygnir hærra hlutfall hennar fyrir norðan land. Þorsteinn segir að þetta mynstur hafi áður tekið breytingum, loðnan hafði áður flutt hrygningarstöðvar sínar með þessum hætti. Bjarni Sæmundsson, hafi þannig lýst því í bók sinni frá fyrri hluta 20. aldar hvernig loðnan hrygndi fyrir norðan land. En tengist breytt gegnd loðnunnar loftslagsbreytingum? „Það er voða erfitt að tengja það ekki þeim breytingum, við sjáum þegar hlýnunin á sér stað hér rétt um aldamótin förum við að sjá vísbendingar um að loðnan færi sig vestar. Hún var lengi framan af inni í okkar lögsögu en hvarf svo að stórum hluta til inn í þá grænlensku. Síðan þá hefur hún verið meira og minna dreifð við Austur-Grænland og við mælum hana þar að hausti. Auðvitað kemur hún hingað til hrygningar en það gerist með öðrum hætti en var áður, þetta eru meiri slattar ef svo má segja í stað þess að vera alvöru göngur með einhverju magni. Það er bæði minna og hegðar sér með svolítið öðrum hætti þannig að allt þetta gerir allar okkar rannsóknir mjög erfiðar og kannski tímafrekari heldur en var.“

Erfitt að spá um loðnu

Hvernig eru horfurnar fyrir næstu ár? Er líklegt að það verði líka loðnubrestur árið 2020? Loðnan er ólík öðrum fiskum fyrir þær sakir að eftir að hún hrygnir deyr hún. Meginþorri veiðistofnsins á hverju ári er því úr einum árgangi og stofninn því viðkvæmur fyrir sveiflum. „Hvort sem sveiflurnar eru vegna umhverfisbreytinganna eða annarra þátta, hitti illa á vor þegar lirfurnar þurfa að byrja að éta til dæmis. Allar svoleiðis sveiflur endurspeglast miklu meira í veiðistofninum þremur árum seinna heldur en ef þú horfir á stofn eins og þorskinn. Þá ertu að veiða úr tíu eða tólf árgöngum og það verður miklu jafnari veiði á milli ára.“ 

Þorsteinn segir haustmælingar við Austur-Grænland, sem gerðar eru rúmu ári áður en hægt er að veiða loðnuna hér við land hafa sýnt að árgangarnir séu litlir. „Það að árgangur sem á að halda uppi veiðum næsta vetur mælist lítill er ekki endilega ávísun á að það verði lítil eða engin loðnuveiði því samhengið á milli þessara mælinga rúmu ári fyrr og svo þess sem kemur inn hefur ekki verið mjög gott. Hins vegar held ég að megi fullyrða að það verði engin vertíð líkt og var hér seint á síðustu öld þegar menn voru að veiða upp í eina og hálfa milljón tonn, þá hefðum við séð meira af ungviði síðastliðið haust en við gerðum.“ 

Í skýrslu Veðurstofu Íslands um áhrif loftslagsbreytinga við Ísland, frá í fyrra, segir að loðnan hafi hopað í hlýindunum á undanförnum árum, haldið sig lengra norður í höfum og vestar yfir landgrunninu við Austur-Grænland. Jafnframt hafi dregið úr nýliðun og stofninn minnkað mikið. Sú tilgáta hefur verið sett fram að norðlæg útbreiðsla seiða og rek þeirra yfir á nýjar og sennilega lakari uppeldisstöðvar  austur- grænlenska landgrunninu, séu þættir í orsakaferli sem leitt hefur til nýliðunarbrestsins. Mikilvægt sé hins vegar í þessu sambandi að hafa í huga að loðnan sé skammlíf tegund og léleg nýliðun, þó ekki sé nema eitt ár, geti haft mikil áhrif á stofnstærðina. Á sama hátt kunni góð nýliðun eitt árið að stuðla að því að stofninn nái sér að verulegu leyti. Í ljósi þessa sé nánast ógerningur, miðað við núverandi þekkingu, að spá fram í tímann um þróun loðnustofnsins.  

Ekki víst að sjórinn hér hlýni

Þorsteinn segir ekki víst að sjórinn hér við land hlýni. Hér gæti líka átt sér stað kólnun. „Það er ekki bara þessi hnattræna hlýnun, við erum á svæði þar sem eru líka miklar náttúrulegar sveiflur í hitastigi. Það er allt eins víst að það fari kólnandi þó alltaf verði einhver áhrif loftslagsbreytinga ofan á það. Þau áhrif kannski eru kannski minni á okkar breiddargráðu en þessar náttúrulegu sveiflur í hitafarinu.“ 

Uppáhaldsmatur þorsksins

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Fengu þessir þorskar loðnu að éta?

Loðnan ein og sér skiptir máli, hefur síðastliðin ár verði annar mikilvægasti nytjastofninn en hún tengist líka öðrum nytjastofnun, er ein mikilvægasta fæða þess stærsta, þorsksins, sem og grálúðu, ufsa og fleiri tegunda. Rannsóknir hafa síðastliðin ár einkum beinst að nytjastofnunum sjálfum en ekki vistkerfinu og flóknum tengslum innan þess. Gæti brotthvarf loðnunnar eða rýr loðnustofn haft neikvæð áhrif á þessa nytjastofna? „Auðvitað getur það haft áhrif, við höfum ekki séð merkjanleg áhrif á meðalþyngd í þessum nytjastofnum en það segir sig sjálft að ef fæðuframboðið af þessari tegund, sem er kannski mikilvægasta fæðan á veturna, er lítið, þá hefur það auðvitað áhrif til lengri tíma.“ 

Loðnustofninn sé þó það stór að hann nýtist öðrum tegundum. „Við sjáum sem betur fer í öðrum leiðangrum, eins og togararalli sem er í gangi núna og við það að klárast að það er víða loðna í mögum og fiskurinn enn að ná sér í fæðu en auðvitað áhyggjuefni hversu lítið það er í grunninn.“ 

Ekki hægt að fullyrða um áhrif

Þorsteinn segir göngumynstur loðnunnar gera það á verkum að hún sé orðin aðgengilegri fyrir aðra nytjastofna á ákveðnum tímum en óaðgengilegri á öðrum. Þá segir hann ekki hægt að fullyrða að það hafi afgerandi áhrif á aðra nytjastofna, verði loðnustofninn áfram lítill, þó ekki sé hægt að útiloka það. Hann segir að verði viðvarandi fæðubrestur geti fiskarnir sótt í aðrar tegundir. „Þá veltur það svolítið á framboði og hæfileikum þeirra til að ná sér í fæðu. Við höfum séð hvernig þorskurinn breytti mynstrinu yfir í að fara að éta kolmunna á ákveðnu árabili. Þetta eru fiskar sem geta breytt fæðuvalinu þó þeir vilji helst eina fæðutegund geta þeir kannski haldið líkamanum í lagi með því að skipta yfir í aðra.“