Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Tvöfalt fleiri umsóknir um vernd í fyrra

18.01.2016 - 14:14
Mynd með færslu
Albönsku fjölskyldurnar, sem fengu ríkisborgararétt fyrir jólin. Flestir sem synjað er um hæli koma frá Albaníu. Mynd: Hallgrímur Indriðason - Hallgrimur Indriðason
Útlendingastofnun fékk 354 umsóknir um vernd árið 2015 og hafa þær aldrei verið fleiri. Þetta eru tvöfalt fleiri umsóknir en síðustu tvö ár á undan. Þá fengu 42% þeirra sem teknir voru til efnislegrar meðferðar hjá stofnuninni vernd. Þetta kemur fram í samantekt frá Útlendingastofnun. Með vernd er bæði átt við hæli og annars konar vernd, til að mynda dvalarleyfi af mannúðarástæðum.

Í samantektinni kemur fram að 82 einstaklingar fengu hæli eða aðra vernd á árinu. 194 umsóknir fengu efnislega meðferð og því enduðu 42% þeirra mála með vernd. Flestir þeirra sem fengu vernd komu frá Sýrlandi, eða 17 talsins. Alls var fólki af 26 þjóðernum veitt vernd á árinu.

Albanar voru hins vegar fjölmennastir þeirra sem sóttu um hæli á árinu - voru alls um 30% umsækjenda. 42% umókna komu reyndar frá löndum Balkanskagans, þ.e. Albaníu, Kosovo og Makedóníu. Næstflestar umsókniur komu frá Sýrlandi og Írak var í þriðja sæti.

Umsóknum um vernd fjölgar líka mikið í öðrum löndum. Tvöfalt fleiri sóttu um vernd í Svíþjóð en í fyrra, næstum þrefalt fleiri í Noregi og í Finnlandi stefnir í að fjöldi umsókna tífaldist milli ára.

Í samantekinni kemur hins vegar fram að þjóðernissamsetning umsækjenda um vernd sé töluvert frábrugðin öðrum Evrópuríkjum. Þar koma flestir umsækjendur frá stríðshrjáðum löndum eins og Sýrlandi, Írak, Erítreu og Afganista. Því eru aðstæður meirihluta umsækjenda sem hingað koma nokkuð frábrugðnar því sem gengur og gerist í nágrannalöndum okkar.

82 mál ekki í efnismeðferð

Árið 2015 fékkst niðurstaða í 323 mál sem stofnunin hafði til afgreiðslu. 82 umsóknir voru ekki teknar til efnislegrar meðferðar vegna þess að umsækjendur höfðu þegar fengið dvalarleyfi í öðru landi (32) eða mál þeirra voru til meðferðar í öðru ríki (50) og 47 umsækjendur drógu umsóknir sínar til baka eða hurfu.

Af þeim 194 umsóknum sem teknar voru til efnislegrar meðferðar var veitt vernd í 82 tilvikum, þar af fengu 66 einstaklingar viðurkennda stöðu sína sem flóttamenn og 16 einstaklingar fengu dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. 112 umsækjendum var synjað um vernd og var veitingarhlutfallið árið 2015 því 42%.

Eins og áður sagði voru Sýrlendingar fjölmennastir í hópi þeirra sem fengu vernd. Því næst komu Rússar, Íranir, Nígeríumenn og Úkraínumenn. Algengasta þjóðerni þeirra sem var synjað um vernd á árinu voru Albanar. 54 einstaklingum þaðan var synjað um vernd. Allt í allt var einstaklingum af 21 þjóðerni synjað um vernd á Íslandi á árinu. Útlendingastofnun segir þessa niðurstöðu í samræmi við niðurstöður mála í öðrum Evrópuríkjum.

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV