Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tvö ung börn skilin eftir á götunni í Árósum

15.12.2019 - 19:09
Erlent · Árósir · Börn · Danmörk · lögregla
Mynd með færslu
 Mynd: Østjyllands Politi
Tvö ung börn fundust við Park Allé-stræti í miðborg Árósa í Danmörku í gær, ein og yfirgefin. Dönskum lögregluyfirvöldum hefur ekki tekist að bera kennsl á börnin eða hafa upp á aðstandendum eða foreldrum þeirra.

Vegfarandi kom auga á börnin á götunni þar sem stúlkan, sem er um eins árs, sat í kerru og drengurinn, sem er á öðru aldursári, stóð við hlið hennar. Eftir að hafa beðið með þeim umkomulausum í um hálftíma áttaði hann sig á því að ekki væri allt með felldu og gerði lögreglu viðvart. Danska ríkisútvarpið greinir frá því að börnunum hafi félagsmálayfirvöld hafi tekið við börnunum og séð til þess að þau fái góða umönnun..

Lögreglan á Austur-Jótlandi vinnur nú að því að bera kennsl á börnin og hafa upp á foreldrum þeirra eða öðrum aðstandendum. Lítið er vitað um börnin eða uppruna þeirra en þau eru talin vera frá Austur-Evrópu. Drengurinn er talandi en lögregla kannast ekki við tungumál hans og vinnur að því að finna túlk.  

Park Allé er í miðborg Árósa og nær frá Rådhuspladsen að Banegårdspladsen. Margt fólk fer þar um bæði fótgangandi og með strætó. Unnið er að því að fara yfir myndefni úr eftirlitsmyndavélum, svo sem úr verslunum, þar um kring í von um að þar fáist vísbendingar um aðstandendur barnanna. Þá eru vitni beðin að gefa sig fram við lögreglu. 

Lögreglan hefur birt myndir af börnunum í þeirri von að hægt sé að hafa uppi á aðstandendum þeirra. Börnin eru komin í hendur tilheyrandi félagsmálayfirvalda og eru sögð hafa það ágætt miðað við aðstæður. Vísir.is greindi frá. 

 

 

Katrín Ásmundsdóttir
vefritstjórn