Tvö tilfelli af afrískum augnormi hér á landi

Mynd: Læknablaðið / Læknablaðið
Tvö tilfelli af lóasýki, eða afrískum augnormi, hafa komið upp hér á landi að undanförnu, í fólki sem dvalið hafði í Afríku. Augnlæknir segir að með auknum ferðalögum berist áður óþekktir sjúkdómar og sýkingar til landsins.

Fjallað er um tilfellin tvö í nýjasta tölublaði Læknablaðsins. María Soffía Gottfreðsdóttir, augnlæknir, er einn höfunda greinarinnar. „Þetta er afrískur augnormur sem er sýking af völdum þessa orms sem kallaður er loaloa. Hann smitast þegar dádýraflugur bíta fólk til blóðs. Við það berast lirfurnar inn í blóðið. Síðan getur ormurinn í raun og veru verið alls staðar í líkamanum, og þar á meðal í augunum,“ segir María Soffía. 

Ormurinn getur lifað í 20 ár

Ormurinn getur orðið allt að sex sentimetra langur og lifað í tuttugu ár. Annar sjúklingurinn hafði haft einkenni í fimm til sex ár en ekki fengið rétta greiningu. Einkennin voru meðal annars þroti, útbrot og kláði á útlimum. Í því tilfelli sást ormurinn greinilega í augum sjúklingsins þegar sjúkdómurinn var loks greindur. Þegar á skurðstofu var komið var ormurinn á bak og burt úr auganu. Mótefni gáfu til kynna að sjúkdómurinn væri lóasýki, að sögn Maríu Soffíu. 

Meiri líkur á sýkingum með auknum ferðalögum

Annar sjúklingurinn hafði fæðst í Afríku en búið hér á landi í nokkur ár. Hinn hafði verið á ferðalagi um heimsálfuna í nokkra mánuði. „Með breyttu landslagi hjá okkur, við erum að ferðast um allt og fleiri ferðamenn koma hingað, þá erum við að sjá sjúkdóma og sýkingar sem við höfum ekki verið að kljást við áður,“ segir María Soffía. Sjaldgæfari fylgikvillar lóasýkingar eru meðal annars heilabólga, hjartavöðvakvilli og nýrnasjúkdómur.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi