Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tvö ný lyf gegn ebólu lofa afar góðu

epa06756609 A worker from the World Health Organization (WHO) administers Ebola vaccination during the launch of an experimental vaccine in Mbandaka, north-western Democratic Republic of the Congo, 21 May 2018 (issued 22 May 2018). Two more people have
Bólusetning við ebólu. Mynd úr safni. Mynd: EPA-EFE - EPA
Góðar líkur eru á að brátt verði bæði hægt að lækna ebólu og bólusetja gegn henni með árangursríkum hætti, að sögn vísindamanna hjá Alþjóða heilbrigðisstofnuninni. Tvö af fjórum lyfjum sem notuð hafa verið í tilraunaskyni í yfirstandandi ebólufaraldri í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó gefa ástæðu til þessarar bjartsýni.

Þessi tvö lyf, REGN-EB3 og mAb114, fara nú í almenna dreifingu í landinu en notkun hinna tveggja verður hætt, þar sem þau reyndust ekki jafn áhrifarík. 71 prósent ebólusjúklinga sem meðhöndlaðir voru með fyrrnefnda lyfinu lifðu af og 66 prósent þeirra sem fengu síðarnefnda lyfið. Ef aðeins er horft til þeirra sem greindust snemma og fengu lyf áður en þeir veiktust illa lifðu allt að 94 prósent sjúklinga sem fengu REGN-EB3 og 84 prósent þeirra sem gefið var mAb114.

Alþjóða heilbrigðisstofnunin hafði umsjón og eftirlit með tilraununum, sem hófust í nóvember á síðasta ári. Í lyfjunum eru mótefni sem ráðast gegn ebólu-vírusnum og gera hann skaðlausan frumum líkamans. Mótefnin eru unnin úr blóði ebólusjúklinga sem náðu heilsu.

Um 1.800 manns hafa látið lífið í faraldrinum sem geisað hefur í austanverðu Kongó síðan síðan í ágúst í fyrra og er sá mannskæðasti sem þar hefur brotist út frá því að ebólu varð fyrst vart, árið 1976. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV