Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Tvö kynferðisbrotamál í nótt - fjögur samtals

Vitað er um fjögur kynferðisbrot það sem af er Verslunarmannahelgi. Tvö kynferðisbrotamál komu til neyðarmóttöku Landspítalans í nótt líkt og í fyrrinótt. Þrjú þeirra hafa verið tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Tveir voru fluttir á sjúkrahús eftir líkamsárásir á þjóðhátíð í Eyjum í nótt.

Neyðarmóttaka Landspítalans fyrir þolendur kynferðisofbeldis tók á móti tveimur í nótt. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir að þau kynferðisbrotamál hafi verið á höfuðborgarsvæðinu en samtals hafi þrenn brot verið tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Fjögur kynferðisbrotamál hafa hins vegar komið inn á borð neyðarmóttökunnar um helgina og ekki vitað hvar það fjórða átti sér stað. Ekki er vitað um tilkynningar um kynferðisbrot til lögregluumdæma annars staðar á landinu. Í Vestmannaeyjum var spurningu ekki svarað en þar er, eins og kunnugt er, stefna lögreglustjórans að segja ekki fjölmiðlum um helgina frá því hvort kynferðisbrotamál hafi komið þar upp eða ekki. 

Þrjú til fjögur líkamsárásarmál komu upp í Vestmannaeyjum í nótt. Jóhannes Ólafsson yfirlögregluþjónn þar segir að tveir hafi verið fluttir á sjúkrahús, annar nefbrotinn, og síðan á spítala í Reykjavik til frekari skoðunar. Tveir hafi gist fangageymslu vegna árásanna. Lögreglan í Eyjum hefur skráð hjá sér nítján fíkniefnamál um helgina. 

Í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi var mestur erill á Flúðum í nótt, flest tengd vímuefnanotkun. Þar voru nokkrar líkamsárásir. Einn gistir fangageymslu á Selfossi. 

Einn var fluttur á sjúkrahús á Akureyri í nótt vegna ofneyslu fíkniefna, tveir gistu fangageymslur á Akureyri en alls skráði lögreglan á Norðurlandi eystra 25 verkefni í nótt. Svolítill erill var í Neskaupstað en lögreglan þar lætur annars vel af nóttinni. 

Hvorki náðist í lögregluna á Ísafirði né í Borgarnesi fyrir klukkan tólf. 

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV