Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Tvö hús á háskólasvæðinu tæmd vegna myglu

21.06.2018 - 20:38
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Starfsfólk Háskólans á Akureyri hefur neyðst til að tæma tvær skrifstofubyggingar við skólann vegna myglu. Kostnaður við endurbætur, og að koma fólki fyrir annarsstaðar, er metinn á um 200 milljónir króna.

Farið var í aðgerðir hjá háskólanum fyrir þremur árum þegar mygla fannst í kjallara undir skrifstofubyggingu á Sólborg. Síðar kom í ljós að myglan er útbreiddari en það. Hús kennslumiðstöðvar háskólans var tæmt um áramót. Ítarleg skoðun leiddi síðan í ljós að tæma þurfti skrifstofubygginguna þar sem myglan greindist fyrst í kjallaranum.

Koma 25 starfsmönnum fyrir annarsstaðar

Það eru samtals 25 starfsmenn í þessum tveimur húsum. Hólmar Svansson, framkvæmdastjóri háskólaskrifstofu, segir að nú þurfi að koma þessu starfsfólki fyrir í öðrum húsum á háskólalóðinni, en einnig í leiguhúsnæði niðri í bæ. „Alveg ótengt þessu þá hefur þurft að þjappa mikið í skrifstofum og finna alla sem fara í frí og koma fólki inn í þær skirfstofur í staðinn. En það er ljóst að þetta leysum við ekki þannig og við verðum að fara út í bæ með upp í 12 til 14 manns.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Húsin tvö sem þurfti að tæma

Um heilsu fólks að ræða

Og í húsunum er alls kyns búnaður, skrifborð og stólar, málverk á veggjum og pappír. Hólmar segir ekki endanlega ljóst hvað verði um innbúið, einhverju þurfi þó að farga. „En hér er um heilsu fólks að ræða og það á að taka alvarlega. Fyrsta mál var bara að koma okkur út úr húsinu og leysa þau mál. Svo verðum við að finna leiðir til að fá fjármagn til að laga þessi hús með viðeigandi hætti þannig að þetta komi ekki upp aftur.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Miklar mygluskemmdir eru í húsunum

Kostnaður ekki undir 200 milljónum króna

Og það eru miklar og dýrar endurbætur fram undan. “Það er svona gróft mat manna að þessar framkvæmdir, við þurfum líka að taka einhver þök sem geta líka verið orsakavaldar í svona, að þetta sé ekki undir 200 milljónum sem við þurfum að taka á næstu árum,“ segir Hólmar.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV