Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tvö börn létust í umsjá bandarískra yfirvalda

Mynd:  / 
Tvö börn létust í umsjá bandarískra landamærayfirvalda í þessum mánuði. Bæði andlátin eru til rannsóknar og yfirvöld hafa tilkynnt um breytt verklag. Börnin voru bæði frá Gvatemala, sjö ára stúlka og átta ára drengur

Börnin voru vistuð í sérstökum búðum, við landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó. Stúlkan hét Jakelin Caal og kom til Bandaríkjanna ásamt föður sínum. Hún var flutt á spítala eftir nokkrar klukkustundir í búðum í Nýju Mexíkó og lést þar skömmu síðar. Talið er að dánarorsök hennar hafi verið ofþornun, ofreynsla og lost - það hefur ekki verið staðfest endanlega og er enn í rannsókn. Hún var jörðuð í heimabæ sínum í Gvatemala á jóladag.

Drengurinn hét Felipe Alonzo-Gomez. Hann kom til Bandaríkjanna 18. desember með föður sínum. Á aðfangadag var hann fluttur á spítala vegna veikinda, þar var hann greindur með venjulega flensu, og útskrifaður með sýklalyf og verkjalyf. Nokkrum klukkustundum síðar byrjaði hann að kasta upp og missti meðvitund. Var hann þá fluttur aftur á sjúkrahús og lést skömmu síðar. Ekki hefur komið fram hver dánarorsökin var. 

Þurfa meira fjármagn 

Kevin McAleenan, förstöðumaður landamæraeftirlits í Bandaríkjunum, segir að stofnunin þurfi meira fjármagn frá þinginu. „Stöðvarnar eru ekki byggðar fyrir þá hópa sem eru að koma yfir landamærin í dag. Þær voru byggðar fyrir 30-40 árum og þá aðallega fyrir einhleypa karlmenn. Við þurfum aðstoð frá þinginu. Við þurfum fjármagn fyrir lænkisaðstoð og sálfræði aðstoð fyrir börn í okkar umsjá.“

Í gær tilkynnti Nancy Pelosi, leiðtogi demókrata í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, að fráfall drengins verði rannsakað líkt og fráfall stúlkunnar. Þá hafa bandarísk landamærayfirvöld tilkynnt um breytt verklag. Öll börn í þeirra umsjá munu nú gangast undir læknisskoðun, sérstök áhersla verður á börn undir tíu ára aldri.