Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Tvö ár fyrir að deyða barn

28.03.2012 - 11:41
Mynd með færslu
 Mynd:
Agné Krataviciuté var í dag dæmd í tveggja ára fangelsi fyrir að hafa deytt barn sitt og skilið líkið eftir í sorpgámi 2. júlí í fyrra. Hún var einnig dæmd til að greiða sakarkostnað og málsvarnarlaun verjanda síns. Þá var henni gert að greiða föður barnsins 600.000 krónur í skaðabætur.

Barnið fannst í sorpgeymslu við Hótel Frón í Reykjavík í byrjun júlí í fyrra. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakaði lát barnsins eftir að læknar á bráðamóttöku Landsspítalans gerðu lögreglu viðvart þegar konan kom þangað með blæðingar og kviðverki. Agné sagðist við réttarhöldið ekki hafa vitað að hún hafi verið barnshafandi þrátt fyrir að læknar töldu  víst að hún hefði fætt fullburða barn. Þá neitaði hún að hafa deytt barnið.

Agné var metin sakhæf og kröfu verjanda hennar um að réttarhaldið skyldi vera lokað var hafnað. Við aðalmeðferð málsins fór saksóknari fram á að hún yrði dæmd í sextán ára fangelsi. Verjandi konunnar krafðist þess hins vegar að hún yrði sýknuð.