Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Tvenns konar COVID-19 veirur greindust í sama manni

23.03.2020 - 21:34
Mynd með færslu
 Mynd:
Íslensk erfðagreining hefur raðgreint um 40 stökkbreytingar af COVID-19 kórónuveirunni í skimun sinni fyrir veirunni hér á landi. Þá hefur einn einstaklingur greinst hér á landi með tvenns konar afbrigði veirunnar. Þetta segir Kári Stefánsson, forstjóri fyrirtækisins, í samtali við fréttastofu.

Kári fjallar einnig um málið við danska miðilinn Information. Í samtali við fréttastofu segir Kári varðandi stökkbreytingarnar að þetta séu séríslenskar stökkbreytingar sem ekki finnist í gagnsöfnum erlendis. Fjölbreytileiki veirunnar bendi einnig til þess að veiran hafi komið hingað til lands úr fleiri áttum en áður var talið, jafnvel frá töluverðum fjölda landa. Raðgreining Íslenskrar erfiðagreiningar hafi leitt það í ljós, en fleiri afbrigði greinast þar heldur en á Landspítalanum þar sem sýktir einstaklingar hafa fyrst og fremst verið skoðaðir. 

Kári segir að hann telji það ofmat að 1% þjóðarinnar sé sýktur. Þó það væri ekki nema 0,5% þá væri það engu að síður um þrisvar sinnum fleiri einstaklingar en þegar hafa greinst. Það skipti öllu máli að finna þá einstaklinga sem eru sýktir. 

Fundu tvenns konar veiru í sama einstaklingi

Í umfjöllun Information kemur einnig fram að einn einstaklingur hér á landi hafi greinst smitaður af tveimur stökkbreytingum veirunnar. Kári útskýrir málið frekar í samtali við fréttastofu:

„Við fundum einstakling sem var með tvenns konar veiru, annars vegar veiruna með ákveðinni stökkbreytingu og hins vegar veiruna án þeirrar stökkbreytingar. Þeir sem hann smitaði síðar, voru allir bara með veiruna með stökkbreytingunni,“ segir Kári.

Hvað skýrir það?

„Það gæti verið bara tilviljun, en svo gæti það líka þýtt að veiran með stökkbreytingunni væri illvígari heldur en sú án stökkbreytingarinnar. Við getum ekki skorið úr um það núna.“

Sjö virðast hafa smitast á fótboltaleik á Englandi

Kári segir við Information að það sé magnað hvernig hægt sé að rekja hverja veiru fyrir sig.

„Sumar komu frá Austurríki og það er önnur stökkbreyting sem fylgir þeim sem smituðust á Ítalíu. Svo er þriðja stökkbreytingin sem finnst í fólki sem smitaðist á Englandi. Sjö einstaklingar virðast til að mynda hafa smitast á fótboltaleik á Englandi,“ segir Kári.

Allan Randrup Thomsen, veirusérfræðingur við háskólann í Kaupmannahöfn, telur að veiran eigi eftir að verða meira smitandi en hún er nú þegar, en muni ekki leggjast jafn þungt á þá sem smitast. Hann segir við Information að þessi fjölbreyttu afbrigði komi sér ekki óvart. 

„Kórónuveirur eru þekktar fyrir að stökkbreytast mjög hratt. Við höfum séð það nú þegar frá Kína og þess vegna getur þetta vel staðist. Það er mjög áhugavert að geta rakið smitleiðir hvers afbrigðis fyrir sig,“ segir Thomsen og hrósar rannsókninni frá Íslandi.

„Íslendingar hafa notið góðs af því að vera lítið og fámennt samfélag og hafa getað rannsakað erfðamengi fjölmargra sjúkdóma, svo ég er viss um að þetta séu góðar og gildar niðurstöður.“

Dýrmæt þekking sem gæti nýst fleirum

María Mjöll Jónsdóttir, deildarstjóri upplýsingadeildar utanríkisráðuneytisins, vonar að niðurstöður frá Íslandi komi öðrum þjóðum vel.

„Gögn úr þessari skimun hafa reynst dýrmæt við að meta útbreiðslu faraldursins og hjálpað til við ákvarðanatöku í framhaldinu. Við trúum því að þetta geti einnig reynst öðrum þjóðum vel sem hafa ekki getað áætlað útbreiðslu veirunnar í sínu þjóðfélagi,“ segir María Mjöll við Information.