Tveir taldir hafa farist í bruna á Selfossi

31.10.2018 - 22:07
Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Talið er að tveir hafi látist í eldsvoða á Selfossi í dag. Tvennt er í haldi lögreglunnar vegna málsins. Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu, segir að vakt verði við húsið í nótt. Vernda þurfi rannsóknarhagsmuni og því sé farið varlega í vettvangsvinnu. Slökkvistarf taki því lengri tíma en ella. Lögregla tekur formlega við vettvangi í fyrramálið.

Tvennt er í haldi lögreglu vegna rannsóknar á brunanum. „Eðli málsins samkvæmt þá erum við að vinna þetta eins varlega og við getum, með tilliti til rannsóknarhagsmuna. Við teljum alveg víst að þarna inni séu tvær manneskjur sem á eftir að ná út. Það er þá alveg öruggt að það fólk er þá látið ef það er þarna inni. Við förum því að öllu með gát. Öllu jafna, ef þetta væri venjulegt slökkvistarf, þar sem við hefðum ekki grun um að fólk væri inni, þá værum við löngu búin og ganga eins langt og við gætum til þess að slökkva eldinn,“ sagði Pétur í viðtali við Hólmfríði Dagnýju Friðjónsdóttur fréttamann í 22 fréttum. 

Pétur segir að slökkviliðið telji sig vita hvar í húsinu fólkið geti verið. „Við teljum okkur hafa nokkuð góða vitneskju um það en við getum ekki sagt það með óyggjandi hætti hvar það er.“

Húsið er gamalt og allskonar efni notað í einangrun þess. Stór hluti þaksins verður fjarlægður til að komast að glæðum. 

„Ég geri ráð fyrir að þegar það verður búið að slökkva í glæðunum að það verði þrír menn frá okkur hér í nótt og svo auðvitað menn frá lögreglunni líka. Ég geri ráð fyrir að rannsókn lögreglunnar muni ekki hefjast af fullum krafti á vettvangnum sjálfum fyrr en á morgun.“ 

Fram hefur komið að hrunhætta er í húsinu. Pétur segir að líklega verði húsið styrkt áður en lögregla tekur við, svo hægt verði að skoða vettvanginn. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi