Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Tveir Píratar bera Birgittu þungum sökum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, er sökuð um að hafa reynt að beita sér fyrir því að Gunnar Ingiberg Jónsson hafni ofar á lista flokksins í Norðvesturkjördæmi og hvatt flokksmenn til þess að samþykkja ekki listann í kjördæminu. Tveir Píratar á Vesturlandi bera Birgittu þungum sökum.

Píratar höfnuðu lista flokksins í Norðvesturkjördæmi í atkvæðagreiðslu á landsvísu eftir að oddviti flokksins í kjördæminu, Þórður Pétursson, var sakaður um smölun fyrir prófkjör. Prófkjörið var því endurtekið. Í dag hafa svo komið fram ásakanir á hendur Birgittu, frá Pírötum í kjördæminu, um að hún hafi hringt símtöl og beitt sér fyrir því að fella ætti listann og að Gunnar Ingiberg Jónsson, fyrrverandi gjaldkeri flokksins, kæmist ofarlega á lista, en hann hafnaði í fimmta sæti í fyrra prófkjörinu. Hafsteinn Sverrisson, fyrrverandi varaformaður Pírata á Vesturlandi, segir í samtali við fréttastofu að Birgitta hafi hringt í flokksmenn víða á Vesturlandi og mælst til þess að hliðrað væri til fyrir Gunnari. Þá hafi hún einnig hvatt flokksmenn til þess að samþykkja ekki listann eftir prófkjörið. Hafsteinn hafnaði í sjöunda sæti á listanum í fyrra prófkjörinu. 

Tekur undir með Hafsteini

Lilja Magnúsdóttir, fyrrverandi meðlimur kjördæmisráðs Pírata í Norðvesturkjördæmi og fyrrverandi varamaður í stjórn Pírata á Vesturlandi, sendi fjölmiðlum grein í dag þar sem fram hún er á svipuðum nótum og Hafsteinn.   

„Þingmaður flokksins, Birgitta Jónsdóttir, fór hamförum á leynilegri síðu flokksins þar sem hún sagðist þekkja mann og annan í heimabæ Þórðar Péturssonar, efsta manns á lista, sem gættu sagt sér hitt og þetta um manninn...” skrifar Lilja og birtir skjáskot af ummælum Birgittu á síðunni þar sem hún skrifar um Þórð: „Ég er búin að finna einn úr Garðabæ sem þekkir hann og hann ber honum ekki góða sögu og er vinur Pírata, fæ ekkert að vita meira fyrr en ég fer í útvarpsviðtal á miðvikudagsmorgun... arg.” og „Og er frekar óvinsæll þjálfari þar í bæ...”

Símtöl um allt land

Lilja segir áróðurinn hafa verið gengdarlausan á Facebooksíðum flokksins, bæði opinberum og óopinberum. 

„Símtöl héldu áfram að berast um allt land.  Fólk var beðið um að fella listann og ýmiskonar rökum slengt fram, efstu menn væru ekki þekktir innan grasrótarinnar í Reykjavík, það væri ekki nógu margar konur á listanum og það þyrfti að rétta við hlut Vestfirðinga. En fyrst og fremst var sú ástæða nefnd að smölun væri ekki liðin innan flokksins. Allavega ekki úr þeirri átt sem talin var hafa verið í baráttu efsta manns á listanum.”

Eva Pandóra leiðir listann

Eftir þetta var listinn felldur í atkvæðagreiðslu Pírata á landsvísu og því var kosið aftur, en sex frambjóðendur hættu við að bjóða sig fram í annað sinn, að Þórði meðtöldum. Eva Pandóra Baldursdóttir hafnaði í efsta sæti, en hún var í fjórða sæti í fyrra prófkjörinu. Í öðru sæti varð Gunnar Ingiberg Jónsson, sem var áður í fimmta sæti, og í þriðja varð Gunnar Jökull, sem áður var í öðru sæti. Þetta eru því töluverðar breytingar frá fyrri lista. 

Ekki hefur náðst í Birgittu í dag. 

 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV