Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Tveir milljarðar til lífsskoðunarfélaga

23.01.2015 - 07:50
Mynd með færslu
 Mynd:
Íslendingar greiddu tvo milljarða króna í sóknargjöld til trúfélaga og lífskoðunarfélaga sinna á síðasta ári. 191 þúsund manns eru í þjóðkirkjunni og 32 þúsund í öðrum félögum. Þar af eru flestir í Kaþólsku kirkjunni en 554 manns eru í tveimur trúfélögum múslima hér á landi.

Sóknargjöld eru innheimt af ríkinu og nema 9.000 krónum á mann á ári. Samkvæmt yfirliti Fjársýslu ríkisins runnu tæpir 2,3 milljarðar til þjóðkirkjunnar að meðtöldu framlagi til Kirkjumálasjóðs og Jöfnunarsjóðs sókna. 292 milljónir króna runnu samtals til annarra trúfélaga og lífskoðunarfélaga utan þjóðkirkjunnar. Þau eru samtals 52. Þau eru misfjölmenn; 8.000 eru í Kaþólsku kirkjunni og næstflestir í Fríkirkjunni í Reykjavík. Rúmlega 2.100 manns tilheyra Ásatrúarfélaginu en það er eina trúfélagið fyrir utan kristna söfnuði sem telur fleiri en 1.000 manns.

Múslimar hér á landi hafa töluvert verið til umræðu undanfarið. Tvö trúfélög múslima eru hér á landi; Félag múslima á Íslandi og Menningarsetur múslima á Íslandi. Í hinu fyrrnefnda eru 317 manns en 237 í hinu síðarnefnda. Fæstir eru í trúfélaginu Endurfædd Kristin kirkja. Í því félagi er aðeins einn.