Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Tveir milljarðar í aðstoð við flóttafólk

19.09.2015 - 15:15
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Ríkisstjórn Íslands ætlar að verja tveimur milljörðum til aðstoðar við flóttafólk og hælisleitendur. Þetta kom fram á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar um málefni flóttamanna í dag.

Stefnt er því að verja einum milljarði króna til aðgerða strax á þessu ári og einum milljarði króna á því næsta. 

Á fundi ríkisstjórnarinnar í dag var ákveðið að stórauka framlög til málefna flóttafólks og hælisleitenda. Tillögur í þ...

Posted by Bjarni Benediktsson on 19. september 2015

Ríkistjórnin leggur til að fénu verði varið til fjárstuðnings við alþjóðastofnanir og hjálparsamtök, til móttöku flóttafólks og hælisleitenda til Íslands og til aðgerða sem umbylt geta og hraðað afgreiðslu hælisumsókna hér á landi.

Fimm manna verkefnastjórn skipuð sérfræðingum mun vinna með ráðherranefndinni og koma með tillögur að því hvernig best sé að skipta fénu. Tillögurnar eiga að liggja fyrir áður en önnur umræða fer fram á Alþingi um fjárlagafrumvarp næsta árs.

Í fréttatilkynningu ríkisstjórnarinnar segir að hún hyggist hvetja aðrar þjóðir til að fylgja fordæmi Íslands. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ætlar til að mynda að ræða málefni flóttafólks á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í New York í næstu viku, þegar Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna fer þar fram.

Ráðherranefndin var skipuð 1. september síðastliðinn en henni var ætlað að kortleggja flóttamannavandann og móta tillögur að aðgerðum.

 

 

Guðmundur Björn Þorbjörnsson
dagskrárgerðarmaður