Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Tveir létust í storminum á Fiji

29.12.2019 - 06:35
Erlent · Hamfarir · Fiji · Eyjaálfa · Veður
Mynd með færslu
 Mynd: NASA
Tveir létust og yfir 2.500 þurftu að flýja heimili sín þegar hitabeltisstormurinn Sarai gekk yfir Fiji-eyjar í gær og nótt. Stormurinn mjakast nú á haf út en skilur eftir sig slóð eyðileggingar. Fjöldi húsa eyðilagðist, uppskera spilltist og tré ýmist kubbuðust í sundur eða rifnuðu upp með rótum þegar Sarai hamaðist á eyjunum af ógnarkrafti. Rafmagn fór víða af og fjöldi ferðafólks komst ekki leiðar sinnar þar sem öllum flugferðum var aflýst þegar mest gekk á.

Vasili Soko, framkæmdastjóri almannavarna á Fiji, segir að átján ára piltur hafi drukknað við eyjuna Kadavu. „Talið er að sterkur straumur hafi hrifið hann á brott, þar sem hann var að synda með vinum sínum," sagði Soko.

Lík karlmanns á fimmtugsaldri fannst svo undan strönd megineyjunnar Viti Levu í morgun, daginn eftir að hann hvarf í ólgandi straumvatn þegar hann reyndi að þvera það. Þriðji maðurinn er á sjúkrahúsi, lífshættulega slasaður eftir að hann varð undir fallandi tré. Einungis um 500 af þeim ríflega 2.500 sem rýma þurftu heimili sín hafa fengið að snúa aftur heim.

Sarai þokast nú í austurátt og er búist við að hann taki land á Tonga á gamlárskvöld. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV