Tveir létust og yfir 2.500 þurftu að flýja heimili sín þegar hitabeltisstormurinn Sarai gekk yfir Fiji-eyjar í gær og nótt. Stormurinn mjakast nú á haf út en skilur eftir sig slóð eyðileggingar. Fjöldi húsa eyðilagðist, uppskera spilltist og tré ýmist kubbuðust í sundur eða rifnuðu upp með rótum þegar Sarai hamaðist á eyjunum af ógnarkrafti. Rafmagn fór víða af og fjöldi ferðafólks komst ekki leiðar sinnar þar sem öllum flugferðum var aflýst þegar mest gekk á.